Tækniskólinn

Tækniskólinn

Tækniskólinn er einkarekinn framhaldsskóli og er rekstrarfélagið í eigu eftirtalinna aðila: Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi - SFSSamtaka iðnaðarinsSamorku og Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík.

Skólinn var stofnaður vorið 2008 með samruna Iðnskólans í Reykjavík og Fjöltækniskóla Íslands. Iðnskólinn í Hafnarfirði varð hluti af Tækniskólanum haustið 2015.

Undirskólar með faglegt sjálfstæði

Tækniskólinn hefur sameiginlega yfirstjórn en kennslan skiptist milli níu undirskóla sem hafa faglegt sjálfstæði. Það eru Byggingatækniskólinn, Endurmenntunarskólinn, Tæknimenntaskólinn, Flugskóli Íslands, Handverksskólinn, Hönnunarbraut, Raftækniskólinn, Skipstjórnarskólinn, Tæknimenntaskólinn, Upplýsingatækniskólinn og Véltækniskólinn. Skólameistari stýrir Tækniskólanum ásamt aðstoðarskólameistara en skólastjóri er yfir hverjum undirskólanna.

Námsbrautir eru samtals 114 og í boði eru um 970 áfangar á önn. Nemendur eru um 1800 í dagskóla og 300 í dreifnámi auk nemenda sem sækja einstök námskeið við Endurmenntunarskólann. Starfsmenn eru um 240.
Tækniskólinn starfar eftir áfangakerfi. Námslok við skólann miðast við að nemendur hafi lokið tilskildum áföngum og einingafjölda eins og tilgreint er í brautarlýsingum skólanámskrár. Skólaárinu er skipt upp í tvær annir, vorönn og haustönn.

Hlutverk

Hlutverk Tækniskólans, skóla atvinnulífsins, er að stuðla að alhliða þroska nemenda, búa þá undir störf í atvinnulífinu og frekara nám í sérskólum og háskólum. Einnig er það hlutverk skólans að búa nemendur undir virka þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi og leitast við að efla með þeim ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi. Tækniskólinn, skóli atvinnulífsins starfar samkvæmt lögum um framhaldsskóla frá 2008 og aðalnámskrá framhaldsskóla frá 2011, með þeim breytingum sem á henni hafa verið gerðar.

Sérstaða

Sérstaða Tækniskólans felst í nánum tengslum hans við atvinnulífið í gegnum eignarhaldsfélag hans og fagráð sem tengjast öllum námsbrautum skólans. Flestar námsbrautir Tækniskólans veita markvissan undirbúning til ákveðinna starfa jafnframt því sem þær opna leiðir til áframhaldandi náms. Sérstakt hlutverk Tækniskólans er að mennta eftirsótt fólk í  handverks,- iðnaðar,- tækni-, og tölvugreinum til starfa í íslensku jafnt sem alþjóðlegu umhverfi.

Markmið

Meginmarkmið Tækniskólans, skóla atvinnulífsins, er að veita nemendum menntun sem samtímis er sniðin að þörfum nemenda og atvinnulífs, auðgar líf einstaklinganna og eflir samfélagið. Það er stefna skólans að vera ávallt í fararbroddi í þróun námsbrauta, kennsluhátta og notkun upplýsingatækni í kennslu.

Tækniskólinn er með skólasamning við mennta- og menningarmálaráðuneytið og í honum koma fram markmið hans og skyldur.

Stjórn Tækniskólans

Nafn Staða Tilnefndur af
Bolli Árnason stjórnarformaður SI
Kolbeinn Árnason varaformaður SFS
Aðalheiður Héðinsdóttir meðstjórnandi SI
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir meðstjórnandi SFS
Hildur Ingvarsdóttir meðstjórnandi Samorku
 
Varastjórn
Katrín Dóra Þorsteinsdóttir varamaður SI
Magnús Þór Ásmundsson varamaður SI
Haukur Þór Hauksson varamaður SFS
Kristján Vilhelmsson varamaður SFS
Gylfi Þór Einarsson varamaður Iðnaðarmannafélaginu í Reykjavík
 
Ráðgjafaráð
Guðmundur Ragnarsson ráðgjafaráð VM
Hallgrímur Gunnar Magnússon ráðgjafaráð Byggiðn