fbpx
Menu

Kafli 4 – Skólanámskrá


Gildi, stefna og markmið Tækniskólans

Tækniskólinn hefur sett sér gildi sem höfð eru að leiðarljósi í öllu starfi og rekstri skólans. Mikilvægt er að starf innan skólans sé á grundvelli þessara gilda og að sífellt sé leitast við að mæta þeim kröfum sem samtíminn gerir til skólastarfs. Samhliða er horft til framtíðar og rýnt í þróun kennslu og starfshátta. Gildi skólans eru alúð, framsækni og fjölbreytileiki. Sjá nánar STS-002

 

Forvarnarstefna

Stefna Tækniskólans er að styðja nemendur í að setja sér skýr markmið í lífinu og vinna markvisst að því að ná þeim. Skólinn leggur áherslu á lífshætti sem leiða til sjálfsvirðingar, sjálfsstjórnar og árangurs. Skólinn leggur einnig áherslu á virðingu fyrir einstaklingum og sérstöðu þeirra, öflugt félagslíf, gott mötuneyti og margvíslega nemendaþjónustu. Skólinn vill aðstoða þá sem hafa ánetjast vímuefnum og í skólanum er notkun tóbaks, áfengis og annarra vímuefna bönnuð. Starf forvarnarfulltrúa STL-021 er hluti af framkvæmd þessarar stefnu. Sjá nánar STS-022

 

Heilsustefna

Tækniskólinn er heilsueflandi framhaldsskóli og vinnur samkvæmt markmiðum landlæknisembættisins. Sjá nánar STS-018

 

Jafnlaunastefna og markmið

Stefna Tækniskólans er að allir starfsmenn njóti jafnra launa og sömu kjara fyrir sömu eða jafn verðmæt störf. Sjá nánar STS-027

 

Jafnréttisstefna

Tækniskólinn setur sér eftirfarandi jafnréttisstefnu sem byggð er á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna nr. 10/2008 og lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði nr. 86/2018. Markmið jafnréttisstefnu Tækniskólans er að tryggja að nemendur og starfsfólk sé metið að verðleikum og njóti jafnréttis óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu og öðrum félags- og persónubundnum þáttum. Tækniskólinn telur að með því að stuðla að jafnrétti fái þekking, færni og hæfileikar allra notið sín í hvetjandi og skilvirku vinnu- og skólaumhverfi þar sem gagnkvæm virðing er höfð að leiðarljósi.

Markmið jafnréttisstefnu er að tryggja að fyllsta jafnréttis sé gætt í hvívetna í skólanum og að bæði nemendur og starfsfólk fái notið sín á eigin forsendum. Markvisst skal hugað að öllum kynjum í stefnumótun og ákvörðunum á öllum sviðum skólans. Kynbundin mismunun er óheimil, hvernig sem hún birtist og skal vinna á virkan hátt gegn slíkri mismunun. Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni er ekki liðið.

Með jafnréttisstefnu skólans er unnið markvisst að því að breyta hefðbundnum kynjaímyndum og vinna gegn neikvæðum staðalímyndum. Kennarar og annað starfsfólk Tækniskólans eru fyrirmyndir nemenda sem stuðla eiga að jafnrétti í orði og á borði. Jafnréttisstefnu Tækniskólans er fylgt eftir með jafnréttisáætlun. Jafnréttisstefna og jafnréttisáætlun eru hluti gæðakerfis Tækniskólans sem er vottað samkvæmt ISO 9001;2015 staðlinum. Sjá nánar STS-015

 

Persónuverndarstefna

Tækniskólinn leggur áherslu á að tryggja að öll meðferð persónuupplýsinga sé í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Markmið persónuverndar-stefnunnar er að auðvelda einstaklingum að átta sig á hvaða upplýsingum skólinn safnar, hvers vegna og hvað er gert við þær. Eins er því lýst hver er þinn réttur varðandi persónuupplýsingar og hvert þú getur leitað ef þú óskar eftir upplýsingum eða ef þér þykir á þér brotið. Sjá nánar STS-024

 

Mannauðsstefna

Mannauður Tækniskólans er verðmætur og til þess að ofangreint sé mögulegt þarf að hlúa að starfsmönnum og gera þá sem best færa til að sinna því hlutverki sínu. Tækniskólinn setur sér starfsmannastefnu til að geta betur stutt starfsmenn sína til góðra verka sem skila árangri fyrir starfsmanninn, skólann og nemendur. Sjá nánar STS-020

 

Stefna gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi og annarri ótilhlýðilegri háttsemi.

Stefna Tækniskólans er að einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni, ofbeldi og ótilhlýðileg háttsemi í hvaða mynd sem er, sé ekki liðið. Leita skal allra ráða til að fyrirbyggja slíkt og leysa þau mál sem upp koma á sem farsælastan hátt. Í skólanum skal lögð áhersla á að efla vitund starfsfólks og nemenda um mikilvægi jákvæðra samskipta og gera þau einkennandi í skólasamfélaginu, t.d. með fræðslu um jafnrétti.

Viðbrögð við einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi og annarri ótilhlýðilegri háttsemi eru nánar skilgreind í verklagsreglu um viðbrögð við einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi og annarri ótilhlýðilegri háttsemi. Sjá nánar STS-016

 

Stefna í alþjóðamálum

Tækniskólinn býður nemendum sínum upp á fyrsta flokks menntun sem nýtist þeim í atvinnulífinu, jafnt og til framhaldsnáms í fagskólum og háskólum, bæði innanlands og utan. Evrópa er að stórum hluta orðið eitt atvinnusvæði og ungt fólk sem er að ljúka námi vill eiga möguleika á að starfa og búa víðs vegar um heiminn, öðlast fjölþætta reynslu, læra nýja siði og venjur sem síðan auðga samfélag þeirra. Sjá nánar STS-019

 

Stefna í skjalavörslu og skjalastjórn

Stefna Tækniskólans er að skjalavarsla og skjalastjórn sé í samræmi við þau lög, reglur og staðla sem mynda starfsumhverfi skólans. Lögð er áhersla á vönduð vinnubrögð við móttöku skjala, skráningu þeirra, miðlun upplýsinga, vinnslu mála og frágang til að tryggja áreiðanleika, vandaða málsmeðferð, rekjanleika ákvarðana, öryggi gagna, persónuvernd, varðveislu og endurheimt. Sjá nánar STS-026

 

Umhverfisstefna

Umhverfisstefna Tækniskólans, skóla atvinnulífsins er yfirlýsing um framtíðarskipan umhverfismála skólans. Sjá nánar STS-017

 

Vefstefna

Vefstefnu Tækniskólans er ætlað að vera leiðbeinandi fyrir vef- og samfélagsmiðla Tækniskólans. Vefstefnan á við um alla miðla sem skólinn tengist og fylgja þarf verkreglum í vefhandbók varðandi notkun á miðlum hans. Sjá nánar STS-021

 

Öryggis-, heilbrigðis- og vinnuumhverfisstefna

Stefna Tækniskólans er að tryggja öllum nemendum og starfsmönnum skólans öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi. Markmið Tækniskólans er að vera slysalaus vinnustaður, að enginn nemandi eða starfsmaður bíði heilsutjón í námi eða starfi sínu hjá skólanum og að stuðla að aukinni öryggisvitund sem nemendur taki með sér út í atvinnulífið að loknu námi. Til þess að ná þessu markmiði ætlast stjórnendur skólans til þess að allir starfsmenn vinni í samræmi við þessa stefnu. Í starfsemi skólans er gert ráð fyrir að fylgt sé öllum kröfum samkvæmt lögum og reglum og að sífellt sé unnið að umbótum sem stuðla að auknu öryggi nemenda, starfsmanna og samstarfsaðila skólans. Sjá nánar STS-025

 

Upplýsingaöryggisstefna

Tilgangur með upplýsingaöryggisstefnu Tækniskólans er að tryggja öryggi persónuupplýsinga skólans eins og skylt er samkvæmt lögum og reglugerðum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga (90/2018) sem og að vernda aðrar upplýsingaeignir hans og tryggja samfellu í starfsemi skólans. Öryggisstefnan er í fullu samræmi við reglur Persónuverndar nr. 299/2001 um öryggi persónuupplýsinga. Sjá nánar STS-029

 

 


Uppfært 3. janúar 2024
Áfangastjórn