fbpx
Menu

sálfræðiaðstoð

Vegna Covid-19

Sálfræðingur skólans er með opinn símatíma alla virka daga milli kl 10 og 11 á meðan samkomubannið varir. Ykkur er velkomið að hringja þó þið eigið ekki bókaðan tíma: 847 3600.
Hér á síðunni eru nokkrar gagnlegar og góðar ábendingar sem geta hjálpað okkur á þessum tímum.
Gangi ykkur vel, Benedikt Bragi Sigurðsson sálfræðingur Tækniskólans

COVID-19

Best er að fylgja ráðum almannavarna og landlæknis varðandi smitvarnir, reglur um sóttkví og fleira í þeim dúr. Góðar upplýsingar má finna á www.covid.is, og svo er hægt að fylgjast með daglegum upplýsingafundum í sjónvarpi kl 14.00. Ég hef rætt um veirufaraldurinn við nokkra nemendur að undanförnu. Ljóst er að þetta hefur misjöfn áhrif á okkur, sumir eru stressaðir, jafnvel óttaslegnir, aðrir eru afslappaðir og vilja jafnvel gera lítið úr faraldrinum. Við fáum skilaboð í fjölmiðlum um hve mikilvægt það sé að allir haldi ró sinni, sýni æðruleysi, en um leið dynja á okkur fréttir um svo og svo mörg smit, misjafnar tölur um dánartíðni o.s.frv. Hver og einn verður að huga að báðum þáttum, þ.e. taka leiðbeiningar um smit nægilega alvarlega, en um leið að huga að eigin líðan og minnka stress.

Stress

Þegar við erum stressuð og kvíðin er líkami okkar verr í stakk búinn til að takast á við sýkingar, okkur líður illa og okkur gengur verr að sinna störfum og námi. Hægt er að draga úr streituástandi með margvíslegum leiðum. Við viljum hugsa um jafnvægi, þar sem streituásand veldur ójafnvægi, til dæmis með of mikilli framleiðslu á hormóninu cortisol. Við náum betra jafnvægi með því að:

  • Sofa vel. Ungt fólk þarf að sofa 8-10 tíma, of lítill svefn eykur streitu. Hollast er að vakna alltaf á sama tíma. Þannig náum við betri tilfinningastjórn.
  • Borða hollan mat og minnka sveiflur í blóðsykri með því að borða ekki mikinn sykur yfir daginn.
  • Hreyfa sig reglulega. Gott er miða við að ná hreyfingu 4 sinnum í viku, 20 mínútur í senn. Best er að finna hreyfingu sem nær að lyfta púlsinum upp í 140 eða þar um bil (cardio-hreyfingu). Nú er síður hægt að fara í ræktina vegna samkomubanns og sýkingarhættu, því er tilvalið að finna aðrar leiðir til að hreyfa sig. Hægt er að gera ýmsar æfingar heima á stofugólfinu eða fara út að hlaupa.
  • Skoða hugarástand okkar. Hugsanir okkar geta auðvitað valdið stressi og kvíða. Gott er að vera vel meðvituð um hvað við hugsum varðandi veirufaraldurinn, skólalokun o.fl. Látum þetta ekki valda okkur of miklum áhyggjum. Hver og einn getur hugsað eitthvað á þessa leið: „ég tileinka mér þær venjur sem draga úr líkum á smiti (handþvottur, fjarlægð milli fólks o.s.frv.), sef vel, hreyfi mig, læri heima o.fl., og þá hef ég gert það sem ég get.“
  • Stunda slökunaræfingar, öndunaræfingar og hugleiðslu. Togaðu axlirnar aftur af og til og settu kassann fram. Finndu slökun í öllum helstu vöðvum. Andaðu djúpt ofan í maga, og rólega. Hugleiðsluæfingar má t.d. finna í smáforritum og á Youtube.

Rútína

Á tímum samkomubanns og skólalokana er hætt við að sumir upplifi sig í fríi, og þá er stutt í að dagleg rútína raskist mikið. Rútína og athafnarsemi er hins vegar mikilvæg og holl fyrir okkur. Best getur verið að byrja hvern dag eins og um hefðbundin skóladag sé að ræða. Vakna snemma, fara í sturtu, klæða sig, draga frá gluggatjöld, opna glugga, borða morgunmat o.s.frv.

Skipulag og markmið

Það er ekki nóg að hafa rútínu, athafnir verða að vera merkingarbærar. Hvað ætlum við að gera? Við verðum að setja okkur markmið, hafa stefnu. Markmið sem gefa lífinu tilgang – svo sem að klára tiltekið nám – hjálpa okkur að framkvæma það sem liggur fyrir að gera. Það sem þarf að gera getur stundum verið erfitt eða leiðinlegt, en í lok dagsins erum við ánægðari en ella. Prófaðu að skipuleggja daginn. Fylgdu stundarskrá þinni og vertu tilbúinn að fylgjast með kennslu í gegnum Microsoft Teams. Ákveddu hvenær þú vilt taka tíma til að læra heima, hvenær þú vilt hreyfa þig o.s.frv. Mundu að borða reglulega. Mikilvægt er að stunda félagsleg samskipti á hverjum degi; á tímum sem þessum auðvitað helst með hjálp síma, leikja eða samskiptaforrita. Í lok dags er svo hægt að gera eitthvað skemmtilegt, horfa pínulítið á sjónvarp, spila tölvuleik eða álíka.

Ábyrgð

Það er mikilvægt að við hjálpumst að, tölum saman, styðjum hvort annað, saman komumst við í gegnum þennan vírus-faraldur og skólalokun. Lífið heldur áfram. Það er líka mikilvægt og gott að við hugum að því að við berum ábyrgð á okkur sjálfum, hvert og eitt. Hver og einn þarf að gera sitt til þess að passa upp á svefn, mataræði, hreyfingu og rútínu. Hver og einn þarf að koma sér upp skipulagi og fylgja því. Hver og einn þarf að spyrja sig að hvaða marki er stefnt, og hvernig má ná því. Þetta, ásamt því að draga úr stressi og kvíða, er til þess fallið að minnka líkur á depurð. S

Sálfræðiráðgjöf

Ekki hika við að hafa samband, sálfræðiþjónusta Tækniskólans verður opin öllum eins og venjulega. Áfram verður hægt að panta tíma í gegnum Innu, en í stað þess að þið mætið í viðtöl á skrifstofu þá mun ég hafa samband í gegnum myndsímtal eða hefðbundið símtal. Ef þið pantið viðtal á Innu þá getið þið í kjölfarið 1) náð í app sem heitir Kara Connect, 2) samþykkt persónuverndar-póst sem ég sendi ykkur í tölvupósti, 3) opnað slóð sem ég sendi, einnig í tölvupósti, og þá getum við spjallað saman með mynd og hljóði. Ef þið viljið frekar þá er sjálfsagt að nota einfaldlega hefðbundið símtal.

Opinn tími:

Ég verð með opinn símatíma alla virka daga milli kl 10 og 11, á meðan samkomubannið varir. Ykkur er velkomið að hringja þó þið eigið ekki bókaðan tíma: 8473600.

Gangi ykkur vel.
Benedikt Bragi Sigurðsson Sálfræðingur Tækniskólans