fbpx
en
Menu
en

Innsýn í námið

Íslenska sem annað tungumál

Ætlar þú að búa á Íslandi? Þá þarftu að hafa vald á íslensku, bæði ritaðri og talaðri.

Íslenskubraut fyrir útlendinga býður þér gott nám sem leggur grunninn í íslensku og þér verða allir vegir færir.

Hér er að finna móttökuáætlun Tækniskólans vegna nemenda sem eru með annað móðurmál en íslensku.

Brautarlýsing

ÍSA19 Íslenskubraut fyrir útlendinga

Námsbrautin er ætluð nemendum af erlendum uppruna. Nemendur með annað móðurmál en íslensku hafa ólíkan bakgrunn hvað varðar nám, menningu og tungumál. Þeir hafa mismikla undirstöðu í eigin tungumáli, læsi og námi og eru því misjafnlega undirbúnir að takast á við nýtt tungumál í nýju umhverfi. Þeir hafa einnig verið mislengi á Íslandi og fengið ólík tækifæri til að kynnast íslenskri tungu. Námsgreinin íslenska sem annað mál er því ekki einungis tungumálakennsla. Saman fara markmið þar sem leitast er við að þjálfa nemendur í íslensku máli, sem og menningarfærni, og með því stuðla að félagslegri vellíðan nemandans. Þau fela í sér að nýja tungumálið sé lykill að íslensku samfélagi, íslensku skólastarfi, íslensku atvinnuumhverfi og brúi ólíka menningarheima.

Með námi á brautinni er stefnt að því að nemendur verði sem best í stakk búnir til að taka virkan þátt í íslensku, lýðræðislegu þjóðfélagi. Því er lögð áhersla á að námsþættirnir snerti persónulega færni, félagslega færni og að lokum starfsfærni eftir því sem framast er unnt. Brautin veitir ekki eiginleg réttindi, en með námi á brautinni er nemendum gert kleift að auka möguleika sína til náms og starfa í íslensku samfélagi. Eitt af lokamarkmiðum námsins er að opna möguleika nemenda á frekara námi við íslenska framhaldsskóla.

Almennar upplýsingar

Inntökuskilyrði

Að hafa annað móðurmál en íslensku eða að hafa alist upp erlendis. Samkvæmt íslenskum lögum raðast nemendur í forgangsröð eftir aldri þannig að þeir yngstu hafa mestan forgang. Síðastliðin ár hafa nemendur verið 16–20 ára sem teknir eru inn og fyllt hópana og enginn nemandi eldri en 25 ára.

Boðið er upp á fjögur stig og nemendur eiga að tilgreina hvaða stig þeir óska eftir í athugasemd í umsókninni. Fyrsta stig er fyrir þá sem kunna enga íslensku og svo framvegis.

Þeir sem sækja um nám á þessari braut en vita ekki hvaða stig þeir ættu að velja skulu hafa samband við Jónu Dís Bragadóttur, skólastjóra.

Að loknu námi

Við námslok á íslenskubraut fyrir útlendinga er reiknað með að nemendur séu undirbúnir fyrir meira nám í íslenskum framhalds­skólum eða hafi bætt svo mjög íslenskukunnáttu sína að hún nýtist þeim á vinnumarkaði.

English - Inna instruction

Umsagnir

Þegar Vilairy flutti til Íslands sótti hún um í Tækniskólann og stundaði fyrst nám á íslenskubraut og síðan í hársnyrtibraut.

Halló. Vilairy heiti ég. Þegar ég flutti til Íslands sótti ég um í Tækniskólann og þar stundaði ég fyrst nám á íslenskubraut. Þar var boðið upp á frábært nám og ég lærði mjög góða íslensku sem nægði mér til að hefja nýtt líf á Íslandi. Ég hélt svo áfram á hársnyrtibraut og námið var mjög skemmtilegt. Ég var mjög heppin og ánægð með námið.

Jose kom til Íslands árið 2011 og lærði íslensku og rafvirkjun í Tækniskólanum

Hæ Jose heiti ég og ólst upp á Spáni. Ég kom til Íslands árið 2011 og þá ákvað ég að fara á íslenskubraut. Að læra íslensku hjálpaði mér mikið að komast inn í samfélagið. Síðan ákvað ég að læra rafvirkjun, sem er frekar fjölbreytt og skemmtilegt nám fyrir gott framtíðarstarf. Takk fyrir mig!

FAQ

Spurt og svarað

Hvernig sæki ég um?

Sækja um hnappur er hér á síðunni en nemendur án kennitölu skulu sækja um hjá Jónu Dís Bragadóttur skólastjóra Tæknimenntaskólans – netfang:  [email protected] og s. 861 6691.

Er aldurstakmark á Íslenskubrautinni?

Já, í rauninni, brautin er fyrir nemendur á framhaldsskólaaldri, eða 16–19 ára. Eldri nemendum er bent á íslenskunámskeið utan framhaldsskóla.

Hvað kostar námið?

Sjá upp­lýs­ingar um skóla­gjöld í gjaldskrá Tækni­skólans.

Er námið lánshæft?

Námið er ekki lánshæft hjá menntasjóði námsmanna. Sjá nánar á menntasjodur.is

Eru efnisgjöld?

Nei, efn­is­gjöld eru innifalin í skóla­gjöldum en kaupa þarf bækur fyrir ákveðna áfanga.

Hvenær hefst kennsla?

Sjá upplýsingar í skóladagatali hér á vefnum.

Hvar fer kennslan fram?

Öll kennsla á íslenskubraut fer fram á Skólavörðuholti.

Er mætingarskylda?

Já, hér má sjá nánari reglur um skólasókn í Tækni­skól­anum.

Hve mörg getustig eru á íslenskubraut fyrir útlendinga?

Getustig eru fjögur. Fyrsta getustig er fyrir þá sem kunna enga íslensku, kennt á einni önn, þá tekur við annað stig og svo koll af kolli. Þá er boðið upp á einn áfanga á fimmta stigi.

Byrja allir á fyrsta getustigi?

Nei, það er mismunandi hvar nemendur eru staddir.

Er nemendafélag?

Nánari upp­lýs­ingar um félagslíf og nemendafélög Tækni­skólans.

Spurningar

Hafðu samband og við svörum þér um hæl!

  • This field is for validation purposes and should be left unchanged.
Var efnið á síðunni hjálplegt?
Frábært það eru góðar fréttir!