Viðbrögð við áföllum

Viðbrögð við áföllum

Áfallaráð ber ábyrgð á að í gildi sé áætlun, sbr. neðangreint, sem farið er eftir þegar áföll verða. Skólameistari fer með stjórn ráðsins. Áfallaráð fer með verkstjórn við válega atburði og ber ábyrgð á að viðbragðsáætlun þessari sé fylgt. Til áfalla teljast andlát, slys og bráð veikindi sem nemendur eða starfsmenn verða fyrir.

Hverjir sitja í áfallaráði?

 • Skólameistarar
 • Tveir námsráðgjafar
 • Rekstrar- og fjármálastjóri

Áætlun vegna áfalla

Sá sem fyrstur fær upplýsingar um dauðsfall eða slys kemur þeim til skólameistara sem aflar nánari upplýsinga um atburðinn. Í kjölfarið kallar skólameistari áfallaráð saman. Ef skólinn er ekki starfandi t.d. vegna sumarleyfis, skal koma upplýsingum á skrifstofu eða til skólameistara við fyrsta mögulega tækifæri. Áfallaráð ákveður viðbrögð og fylgir þeim eftir.

Slys/alvarleg veikindi

 • Starfsmönnum og nemendum greint frá því ef einhver úr þeirra hópi hefur lent í alvarlegu slysi/ veikindum og þarf að vera langdvölum burt frá skólanum af þeim sökum.
 • Viðkomandi kennurum og hugsanlega nemendahópi greint frá alvarlegu slysi í fjölskyldu nemanda. Skal það gert í samráði við nemandann og fjölskyldu hans.
 • Verði nemandi fyrir slysi á skólatíma eða í ferð á vegum skólans á að hafa samband við lögreglu og láta skólameistara vita. Skólameistari lætur forráðamenn/aðstandendur vita svo fljótt sem auðið er.
 • Verði starfsmaður fyrir slysi á skólatíma hefur skólameistari samband við aðstandendur.
 • Skólastjórnendur gæti þess eftir því sem mögulegt er að enginn fari heim með rangar upplýsingar ef slys hefur orðið á skólatíma.
 • Skólameistari er eini tengiliður skólans við fjölmiðla um atburði sem áfallaráð fjallar um.

Andlát nemanda/starfsmanns

 • Skólameistari fær andlátið staðfest og leitar réttra upplýsinga um aðdraganda þess.
 • Eigi andlátið sér stað í skólanum þarf sá starfsmaður sem fyrstur kemur á vettvang að kalla til lögreglu og tilkynna skólameistara hvað hent hefur.
 • Þess skal gætt að náin skyldmenni og vinir hins látna sem eru við nám eða störf innan skólans fái fregnina áður en öðrum er tilkynnt um andlátið.
 • Starfsmönnum sé tilkynnt um andlátið eins fljótt og kostur er og gefnar upplýsingar um tildrög þess.
 • Áfallaráð taki afstöðu til þess eftir atvikum hve víða um skólann sé tilkynnt um andlát nemanda.
 • Flaggað í hálfa stöng þann dag sem andlát er tilkynnt og á útfarardag, en skólahald verði eins hnökralaust og unnt er.
 • Skólastjórnendur sendi samúðarkveðjur til fjölskyldu hins látna.
 • Sýni fjölmiðlar áhuga er skólameistari eini tengiliður.

Andlát aðstandenda starfsmanns eða nemanda

 • Látist maki eða barn starfsmanns skal samstarfsmönnum hans greint frá því.
 • Látist foreldri eða annar náinn aðstandandi nemanda skal viðkomandi kennurum greint frá því.
 • Nemandanum bjóðist aðstoð innan skólans eftir því sem þörf krefur og stuðningur varðandi endurkomu í skólann.

Útför starfsmanns / nemanda

 • Skólastjórnendur /samstarfsmenn skrifi minningargrein fyrir hönd skólans og ákveði hverjir mæti við útförina sem fulltrúar skólans. Útförin tilkynnt á upplýsingaskjá skólans.
 • Kanna þarf vilja skólafélaga til að vera við útförina og hvort þörf er á að undirbúa nemendur sérstaklega fyrir útförina.

Endurskoðun

Áætlun þessa þarf að endurskoða eigi sjaldnar en á tveggja ára fresti og skal áfallaráð sjá um það.