Umhverfisstefna

Umhverfisstefna Tækniskólans

Umhverfisstefna Tækniskólans, skóla atvinnulífsins er yfirlýsing um framtíðarskipan umhverfismála skólans. Stefnan er mótuð af undirbúningshópi um umhverfismál sem tók til starfa haustið 2013. Undirbúningshópurinn hefur sett fram markmið skólans og aðgerðaáætlun.

Megin áhersla stefnunnar er að nemendur og starfsfólk verði meðvitað um mikilvægi þess að ganga vel um náttúruna, draga úr sóun, stuðla að endurvinnslu og að umhverfisfræðsla verði hluti af námi allra skóla Tækniskólans.

Aðgerðaáætlun - leiðir til árangurs.

Stýrihópur um umhverfismál skal vera starfandi. Í honum eiga sæti tveir fulltrúar kennara, tveir fulltrúar stoðsviða einn úr yfirstjórn og tveir nemendur.

Hlutverk stýrihópsins er að móta og fylgja eftir markmiðum og stefnu skólans í umhverfis- og velferðarmálum. Móta og fylgja eftir aðgerðaáætlun um innleiðingu stefnu skólans.

Umhverfisstefna

Markmið: 

Innleiðing sjálfbærrar þróunar og umhverfismeðvitundar starfsfólks og nemenda 

Starfsfólk og nemendur Tækniskólans hafa umhverfissjónarmið að leiðarljósi í daglegu starfi. 

Neikvæð umhverfisáhrif Tækniskólans verði eins lítil og framast er unnt. 

Umhverfisfræðsla er hluti af fagnámi hvers nemanda. 

Innkaup skólans eru umhverfismiðuð. 

Endurnýtanlegur úrgangur er flokkaður og endurunninn sem kostur er. 

Spilliefni eru meðhöndluð samkvæmt reglum og skilað til viðurkenndra móttökuaðila.

Innkaup

Við innkaup á vörum skal leitast við að velja þær tegundir sem teljast ekki skaðlegar umhverfinu. Reynt skal eftir megni að velja vöru sem er merkt með viðurkenndu umhverfismerki.

Pappír – umbúðir

Notkun á pappír verði takmörkuð og upplýsingum dreift rafrænt þar sem því er við komið.

Öllum endurvinnanlegum pappír er safnað saman í merkta kassa og hann sendur til endurvinnslu.

Öllum dósum og endurvinnanlegum drykkjarumbúðum sem til falla í skólanum er safnað saman á einn stað og þær sendar til endurvinnslu.

Allur pappír og umbúðir merkt skólanum skal vera úr endurvinnanlegu efni.

Notkun einnota matar- og drykkjaríláta skal haldið í lágmarki.

Ræsting skólahúsnæðis

Skólinn leggur áherslu á að við þrif á skólahúsnæðinu séu eins og kostur er notaðar umhverfisvænar vörur.

Flokkun og endurnýting

Stjórnendur og starfsfólk skólans er meðvitað um að náttúruauðlindir jarðarinnar eru takmarkaðar. Í samræmi við umhverfisstefnu skólans, sem er grundvölluð á þeirri vissu að endurnýting sé svarið við þverrandi uppsprettu náttúrulegra hráefna, mun flokkunarkerfi verða komið á.

Orkunotkun

Spara skal orku eins og unnt er án þess að hefta starfsemi eða öryggi nemenda og starfsmanna. Í lok hvers starfsdags skal gengið úr skugga um að slökkt hafi verið á þeim tækjum sem eyða orku. Við tölvukaup skal að öðru jöfnu velja þær sem nota lágmarksorku í hvíld. Leitast skal við að nota orkusparandi rafmagnstæki og ljós eftir því sem kostur er.

Húsakynni og lóð

Lögð er áhersla á að umgengni á lóð og um húsakynni skólans sé til fyrirmyndar. Dagleg umgengni og frágangur á kennslurými skal vera hluti fagnáms.

Fræðsla

Í öllum skólum Tækniskólans skal í fagnámi vera umhverfisfræðsla, bæði almenn og sem tengist viðkomandi fagsviði. Áhersla á sjálfbæra þróun skal vera í allri námskrárgerð. Skólinn beitir sér fyrir fræðslu um umhverfismál fyrir starfsfólk skólans eftir því sem kostur er.