Jafnréttisstefna

Jafnréttisstefna Tækniskólans

JanfréttisstefnaTækniskólinn (TS) setur sér eftirfarandi jafnréttisstefnu sem byggð er á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna nr. 10/2008.

Markmið jafnréttisstefnu Tækniskólans er að tryggja að nemendur og starfsfólk sé metið að eigin verðleikum og njóti jafnréttis óháð kynferði, aldri, uppruna, kynhneigð, fötlun og öðrum félags- og persónubundnum þáttum. Tækniskólinn telur að með því að stuðla að jafnrétti fái þekking, færni og hæfileikar allra notið sín í hvetjandi og skilvirku vinnu- og skólaumhverfi þar sem gagnkvæm virðing er höfð að leiðarljósi.

Markmið jafnréttisstefnu er að tryggja að fyllsta jafnréttis kynjanna sé gætt í hvívetna í skólanum og að bæði nemendur og starfsfólk fái notið sín á eigin forsendum án tillits til kynferðis. Markvisst skal hugað að báðum kynjum í stefnumótun og ákvörðunum á öllum sviðum skólans. Kynbundin mismunun er óheimil, hvernig sem hún birtist og skal vinna á virkan hátt gegn slíkri mismunun. Kynbundið ofbeldi og kynferðisleg áreitni er ekki liðin.

Með jafnréttisstefnu skólans er unnið markvisst að því að breyta hefðbundnum kynjaímyndum og vinna gegn neikvæðum staðalímyndum. Kennarar og annað starfsfólk Tækniskólans eru fyrirmyndir nemenda sem stuðla eiga að jafnrétti í orði og á borði. Jafnréttisstefnu Tækniskólans er fylgt eftir með jafnréttisáætlun.

Jafnréttisstefna og jafnréttisáætlun eru hvorutveggja hluti rekstrarhandbókar TS og ISO 9001 vottun.

JAFNRÉTTISNEFND

Innan TS skal starfa jafnréttisnefnd, kosin á starfsmannafundi til þriggja ára í senn. Í jafnréttisnefnd skulu sitja fimm einstaklingar þar af a.m.k. einn úr röðum almennra starfsmanna, einn kennari og einn nemandi. Stjórn nemendasambands TS tilnefnir sinn fulltrúa. Hlutverk jafnréttisnefndar er að fylgjast með stöðu jafnréttismála í skólanum, gera tillögur um stefnu og áætlanir skólans í jafnréttismálum og fylgja jafnréttisáætlun eftir. Jafnréttisnefnd setur fram tveggja ára aðgerðaáætlun í senn, fylgir eftir framkvæmd hennar og metur árangur miðað við sett markmið. Formaður jafnréttisnefndar er jafnréttisfulltrúi TS.

Fulltrúar í jafnréttisnefnd 2015-16:

Kolbrún Kolbeinsdóttir skólastjóri Tæknimenntaskólans, fulltrúi skólastjóra
Ómar Árnason bókavörður
Snædís Fríða Draupnisdóttir fulltrúi nemenda 
Úlfar Harri Elíasson fagstjóri stærðfræði og raungreina, fulltrúi kennara 
Þórdís Guðmundsdóttir námsráðgjafi - jafnréttisfulltrúi og formaður nefndar

ENDURSKOÐUN

Jafnréttisáætlun þessi er gerð í samræmi við 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008, þar sem kveðið er á um að leggja beri áherslu á að tryggja konum og körlum jafnan rétt. Jafnframt segir að jafnréttisáætlun og jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu og í skólastarfi almennt skuli endurskoða á þriggja ára fresti.

Skólameistari skal tryggja að áætluninni verði framfylgt og að hún verði uppfærð með tilliti til 18. gr. laga nr. 10/2008.

Jafnréttisáætlun þessi var samþykkt af skólameistara Tækniskólans þann 02.03.2015 og verður endurskoðuð fyrir lok árs 2017 .

Kynjatölur Tækniskólans

Kynjatölur Tækniskólans vor 2015

JAFNRÉTTISÁÆTLUN

Jafnréttisáætlun TS er verkfæri til þess að hrinda stefnunni í framkvæmd með skipulögðum hætti. Jafnréttisáætluninni er skipt í tvo hluta:

Vinnustaðurinn / starfsfólk Tækniskólans

Skólastarf, nemendur nám og kennsla.

Áætluninni er ætlað að jafna stöðu kvenna og karla innan skólans og stuðla að því að allir fái notið sín án tillits til kyns. Jafnréttisnefnd TS ber ábyrgð á að gera jafnréttisáætlun á grundvelli jafnréttisstefnu skólans og skal hún kynnt starfsfólki og nemendum. Áætlunina skal endurskoða á tveggja ára fresti og meta með hliðsjón af jafnréttisstefnunni og þeim árangri sem náðst hefur samkvæmt settum markmiðum.

VINNUSTAÐURINN / STARFSFÓLK

a. Jafnréttissjónarmið skal meta til jafns við önnur mikilvæg sjónarmið við stöðuveitingar. Stefnt skal að sem jöfnustu hlutfalli kynja í sambærilegum störfum og skal sérstaklega hugað að skipun í stjórnendastöður og kennarastöður í greinum þar sem annað kynið er ríkjandi.

Aðgerð: Jafnréttisnefnd safnar saman kynjatölum nýrra og eldri starfsmanna frá stjórnendum.
Tími: Annað hvert ár, í fyrsta sinn vorið 2015.
Kynning: Á starfsmannafundi það sama vor og í ársskýrslu skólans.

b. Konur og karlar skulu njóta jafnra launakjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf og eiga jafna möguleika á launuðum aukastörfum.

Aðgerð: Úttekt á launum og fríðindum starfsmanna, unnin af óháðum aðila, þar sem kynbundinn launamunur er kannaður sérstaklega.
Tími: Vor 2016.
Kynning: Á starfsmannafundi haustið 2016.

c. Gæta skal þess að konur og karlar eigi sömu möguleika á að samræma starf og einkalíf og koma til móts við þarfir starfsmanna s.s. með sveigjanlegum vinnutíma, hlutastörfum eða annars konar vinnuhagræðingu þar sem því verður við komið.

Aðgerð: Jafnréttisnefnd undirbýr hvernig kanna megi að hvaða marki og á hvern hátt komið er til móts við starfsmenn vegna fjölskylduaðstæðna. Nefndin tekur við ábendingum starfsfólk um hugsanlegar aðgerðir til úrbóta og kemur þeim til skólameistara. Jafnréttisnefnd hvetur stjórnendur til þess að hugsa út fyrir rammann og leita lausna með starfsmanni sem koma þarf til móts við.
Tími: Vor 2016.
Kynning: Könnun gerð haustið 2016.

d. Gæta skal jafnréttissjónarmiða þegar verkefnum er úthlutað og ábyrgð deilt. Við skipan í nefndir og ráð skal gæta þess að kynjahlutfall sé sem jafnast.

Aðgerð: Jafnréttisnefnd geri úttekt á hlutfalli kynja í nefndum og ráðum.
Tími: Annað hvert ár, í fyrsta sinn haustið 2015.
Kynning: Vorönn annað hvert ár, í fyrsta sinn vorið 2016.

e. Á hverju skólaári skal halda fræðslufund og/eða námskeið fyrir starfsfólk sem snertir jafnréttismál.

Aðgerð: Jafnréttisnefnd skipuleggur í samráði við stjórnendur og samstarfsfólk sem kemur með hugmyndir og ábendingar
Tími: Árlega, í fyrsta sinn á vorönn 2015.

f. Vekja skal athygli á því sem vel er gert í jafnréttismálum innan skólans.

Aðgerð: Jafnréttisnefnd leitar upplýsinga hjá starfsmönnum um og birtir frétt á heimasíðu skólans.
Tími: Á hverju skólaári, í fyrsta sinn á haustönn 2015.

g. Kynna skal viðbragðsáætlun gegn einelti og kynferðislegri áreitni og ofbeldi.

Aðgerð: Umfjöllun á kennarafundi.
Tími: Aðra hverja haustönn, í fyrsta sinn haustið 2015

Telji starfsmaður að jafnrétti sé brotið eða farið á mis við reglur skólans skal hann leita til skólameistara, jafnréttisfulltrúa eða trúnaðarmanns Tækniskólans, sem finna málinu farveg.

SKÓLASTARFIÐ / NEMENDUR

a. Þeir starfsmenn sem kynna skólann skulu gæta þess að höfða til beggja kynja og hvetja væntanlega nemendur til þess að kynna sér nám óháð staðalímyndum um hefðbundin karla- og kvennastörf.

Aðgerð: Jafnréttisnefnd sé höfð með í ráðum þegar kynningarefni er útbúið. Fulltrúar skólans út á við, bæði nemendur og kennarar, séu af báðum kynjum, sé þess nokkur kostur.
Tími: Jafnréttisnefnd fer yfir drög að kynningarefni þegar slík vinna er í gangi og leitar upplýsinga um tilhögun kynninga á skólanum og hvort gætt hafi verið að kynjasjónarmiðum.
Kynning: Jafnréttisnefnd upplýsir starfsmenn um stöðu þessara mála árlega.

b. Kanna skal kynjaskiptingu nemenda, innan Tækniskólans og undirskóla hans, svo og kynjaskiptingu í félagslífi skólans, nefndum og ráðum innan Nemendasambandsins.

Aðgerð: Jafnréttisnefnd safnar saman kynjatölum nemenda úr tölvukerfi og frá Nemendasambandinu.
Tími: Annað hvert ár, í fyrsta sinn vorið 2015.
Kynning: Á starfsmannafundi það sama vor og í ársskýrslu skólans.

c. Nemendur skólans skulu njóta fræðslu um jafnréttismál og fá kynningu á jafnréttisstefnu skólans, sem og viðbragðsáætlun ef kvörtun berst um kynferðislega áreitni eða ofbeldi, en hún liggur fyrir undir heitinu „viðbragðsáætlun gegn einelti“.

Aðgerð: Jafnréttisnefnd vinni að undirbúningi s.s. hvar þessi fræðsla eigi best heima og hvernig aðrir skólar hafi skipulagt jafnréttisfræðslu.
Tími: Árið 2015
Kynning: Á vorönn 2016 leggur Jafnréttisnefnd fram tillögur sínar. Jafnréttisstefna skólans skal vera aðgengileg á heimasíðu sem og viðbragðsáætlun um kynferðislega áreitni eða ofbeldi

d. Leggja skal áherslu á jafnréttissjónarmið í allri kennslu í skólanum, sem komi fram m.a. í skipulagi náms, vali á námsefni, kennslu og samskiptum við nemendur.

  1. Ýtt skal undir gagnrýna umfjöllun um hefðbundna kynjaskiptingu og kynhlutverk í náminu og benda á leiðir til að koma auga á og vinna gegn misrétti
  2. Kennarar skulu gæta þess að vitna í sérfræðinga af báðum kynjum
  3. Í kennslu skal unnið markvisst að því að breyta hefðbundnum kynja- og staðalímyndum
  4. Kennarar og annað starfsfólk skulu vera nemendum fyrirmynd um jafnréttissinnaða framkomu og veita stúlkum og piltum jöfn tækifæri til að tjá skoðanir sínar
  5. Náms- og starfsráðgjafar skulu vera meðvitaðir um vægi kynbundinnar félagsmótunar á námsval nemenda og hvetja þá til að íhuga námsleiðir þar sem kynjaslagsíða er mikil
  6. Starfsfólk allt gæti þess að gera ekki ráð fyrir að allir nemendur séu gagnkynhneigðir
Aðgerð: Í könnun ár hvert skal spyrja nemendur hvernig þeim þyki kennarar og annað starfsfólk standa sig hvað ofangreind atriði varðar. Einnig skal kanna hvort orðið „jafnrétti“ komi fyrir í kennsluáætlunum.
Tími: Árlega, í fyrsta sinn árið 2016.
Kynning: Niðurstöður kynntar á kennarafundi árlega.

Telji nemandi að jafnrétti sé brotið eða farið á svig við reglur skólans skal hann leita til skólameistara, náms- og starfsráðgjafa, eða félagsfulltrúa TS sem finna málinu farveg.