Sagan

Saga Tækniskólans - skóla atvinnulífsins

 

Tækniskólinn var stofnaður árið 2008 þegar Iðnskólinn í Reykjavík og Fjöltækniskólinn sameinuðust. 

Skólinn er stærsti framhaldskóli landsins og byggir á langri og merkri sögu sem tengist atvinnulífi landsins á marga vegu. 

Hér er rakin í stuttu máli saga skólanna sem eru grunnur Tækniskólans:  

Upphaf vélstjóramenntunar

Upphaf vélstjóramenntunar á Íslandi má rekja til ársins 1911. Það ár tóku gildi lög sem gerðu ráð fyrir að stofnuð yrði vélstjórnardeild við Stýrimannaskólann í Reykjavík en togaraútgerð var þá nýlega hafin hér.

Til kennslunnar var ráðinn danskur maður, Marinius Eskild Jessen. Kenndi hann við deildina næstu vetur og varð síðar fyrsti skólastjóri Vélstjóraskólans. Skólinn var stofnaður 1915 og starfaði hann í tveimur deildum undir stjórn Jessens. Húsnæði hafði skólinn í kennslustofum Iðnskólans í Reykjavík við Lækjargötu. 

Um svipað leyti hófst námskeiðahald á vegum Fiskifélags Íslands fyrir vélgæslumenn á litlum bátum. Sá fiskifélagið um þann þátt vélstjóramenntunarinnar þar til Vélskóli Íslands tók við því árið 1966. 

Um og eftir fyrri heimsstyrjöldina fór rafbúnaður skipa að aukast. Samtímis opnaðist nýr starfsvettvangur fyrir vélstjóra þegar virkjun fallvatna hófst. Þessi þróun kallaði á aukna menntun vélstjóra. 

Árið 1930 voru samþykkt ný lög á alþingi þess efnis að stofnuð skyldi rafmagnsdeild fyrir vélstjóra og rafvirkja. Það var ekki síst fyrir atbeina Vélstjórafélags Íslands, sem studdi skólann af ráðum og dáð, að lögin náðu fram að ganga. Þó var það ekki fyrr en árið 1935 sem rafmagnsdeild skólans tók til starfa. 

Inntökuskilyrði voru smiðjutími og sveinspróf

Allt til ársins 1966 var það inntökuskilyrði í skólann að umsækjendur hefðu starfað í smiðju. Fram til 1936 urðu umsækjendur að hafa starfað í þrjú ár í smiðju en eftir það í fjögur ár, ásamt að hafa lokið iðnskólaprófi.

Þessi breyting kom til af árekstrum á vinnumarkaði vegna þess að vélstjórar höfðu ekki iðnréttindi. 

Þetta varð til þess að þeir sem ætluðu í Vélskólann luku sveinsprófi áður. Allt til ársins 1966 höfðu einkum þeir sótt nám við skólann sem hugðust verða vélstjórar á stórum skipum, togurum og farskipum,. En með setningu nýrra laga árið 1966 var skólanum heimilað að taka nýja nemendur án þess að þeir hefðu áður lokið smiðjutíma og iðnskólaprófi. Kennsla í málmsmíðum hófst í Vélskólanum árið 1966 vegna hinna breyttu inntökuskilyrða. 

Nemendur, sem hugðust fá sveinsréttindi, en þau eru skilyrði fyrir því að fyllstu vélstjórnarréttindi og starfsheitið „vélfræðingur“ fáist, fengu smiðjutíma sinn styttan um leið, úr fjórum árum í tvö. 

Vélstjóramenntunin hefur æ síðan verið í höndum Vélskólans og vélskóladeilda á landsbyggðinni (nú á vélstjórnarbrautum fjölbrautaskólanna). 

Tækniframfarir og breyttir kennsluhættir

Tækniframfarir hafa orðið miklar á þeim árum sem Vélskólinn hefur starfað og jafnframt hafa orðið miklar breytingar á kennsluefni og starfsháttum skólans. Fyrstu árin var námið við skólann eingöngu bóklegt. Verkleg kennsla í vélasal hófst ekki fyrr en 1952. Kennsla í kælitækni hófst fyrst 1951, í stýritækni 1968, í stillitækni 1970 og í tölvufræði 1981. 

Haustið 1981 hófst kennsla samkvæmt áfangakerfi og var reglugerð þar að lútandi sett í febrúar 1982. Við þá breytingu á skólanum var kennslan samræmd kennslu í öðrum framhaldsskólum eftir því sem við varð komið, jafnframt því að nemendum var gert kleift að ljúka hluta námsins í heimabyggð sinni eða í öðrum framhaldsskólum. 

Frekari fróðleik má finna í afmælisriti Vélskólans, Vélstjóramenntun á Íslandi, Vélskóli Íslands 75 ára, eftir Franz Gíslason.

 

Upphaf skipstjórnarmenntunar

Skipuleg kennsla skipstjórnarmanna hófst hér á landi upp úr miðri síðustu öld á Ísafirði, en Torfi Halldórsson skipstjóri kenndi þar árin 1852-1856, en síðar á Flateyri við Önundarfjörð.

Fyrir stofnun Stýrimannaskólans í Reykjavík kenndu einstaka skipstjóra-lærðir menn á nokkrum stöðum um landið. Í Reykjavík mun Magnús Jónsson Waage fyrstur manna hafa byrjað kennslu í siglingafræði, sem hann auglýsti í Reykjavíkurpóstinum árið 1847. Þeir sem kenndu siglingafræði höfðu aflað sér menntunar erlendis eða með sjálfsnámi. Sumir höfðu lært undirstöðuatriði í siglingafræði af erlendum skipstjórum er sigldu hingað á sumrin. Í hópi þessara fyrstu kennara í siglingafræði voru t.d. Árni Thorlacius í Stykkishólmi, Jósef Valdason í Vestmannaeyjum, á Norðurlandi þeir Einar Ásmundsson í Nesi og Jón Loftsson í Efra-Haganesi, Fljótum, Eiríkur Briem prestaskólakennari í Reykjavík, Kristján Andrésson í Meðaldal í Dýrafirði og Hannes Hafliðason í Hafnarfirði.

Stofnun Stýrimannaskólans

Ekki komst þó nein skipan á þessi mál hér á landi fyrr en með stofnun Stýrimannaskólans í Reykjavík með lögum hinn 22. maí 1890, en skólinn tók til starfa haustið 1891. Fyrsti skólastjóri og einn helsti hvatamaður að stofnun Stýrimanna-skólans var Markús F. Bjarnason, skipstjóri á útvegi Geirs Zoëga í Reykjavík. Fyrir stofnun skólans hafði hann kennt ungum sjómönnum undir skipstjórnarréttindi, og voru þeir prófaðir um borð í dönskum herskipum, sem voru þá hér við landhelgisgæslu. Frá stofnun hefur Stýrimannaskólinn í Reykjavík verið höfuðskóli íslenskra sjómanna og skipstjórnarmanna.

Frá um 1910 til 1937 voru á vegum Fiskifélags Íslands haldin smáskipanámskeið á nokkrum stöðum á landinu. Námskeiðin stóðu í 3 til 4 mánuði og veittu fyrst 30 rúmlesta réttindi, og síðar 60 rúmlesta réttindi. Árið 1937 tók Stýrimannaskólinn í Reykjavík að sér þessi námskeið og lauk þeim með hinu minna fiskimannaprófi, sem veitti fyrst 75 rúmlesta réttindi, en síðar 120 rúmlesta réttindi.

Ný lög, breytt réttindi og þróun kennslunnar

Með nýjum lögum um atvinnu við siglingar árið 1936 voru gerðar allmiklar breytingar á prófum og kennslu í Stýrimannaskólanum. Fram að þeim tíma höfðu próf verið tvö - hið íslenska farmannapróf og hið íslenska fiskimanna-próf, en með breyttum lögum um skólann urðu prófin fjögur: Hið minna fiskimannapróf, Hið meira fiskimanna-próf, Farmannapróf og Skipstjórapróf á varðskipum ríkisins.

Þessi tilhögun náms og prófa var óbreytt fram til 1966, en þá var námsefni 1. bekkjar farmanna og fiskimanna samræmt og lengt úr fjögurra mánaða námi í 7 mánaða nám. Prófið var nefnt skipstjórapróf 1. stigs og veitti skipstjórnarréttindi í innanlandssiglingum á skip allt að 120 rúmlestir að stærð.

Með lögum nr. 112/1984 veitir skipstjórapróf 1. stigs skipstjórnarréttindi á 200 rúmlesta skip og minni í innanlandssiglingum og námið var lengt til jafns við önnur stig skipstjórnarnámsins.

Árið 1972 var námsefni 2. bekkjar fiskimanna og farmanna samræmt og nefnt skipstjórnarpróf 2. stigs. Það sama ár voru sett ný lög um Stýrimannaskólann, lög nr. 22 frá 3. maí 1972.

Með gildistöku laga um framhaldsskóla nr. 80/1996, hinn 1. ágúst 1996, féllu lög um Stýrimannaskólann úr gildi, en Stýrimannaskólinn í Reykjavík, "sem veitir sérhæft nám á framhaldsskólastigi," fellur undir hin nýju framhaldsskólalög, sem "skulu komin að fullu til framkvæmda í upphafi skólaársins 2000-2001."

Árið 1964 var Stýrimannaskólinn í Vestmannaeyjum stofnsettur. Skólinn starfaði í tveimur deildum og veitti full réttindi fiskimanna (skipstjórnarpróf 1. og 2. stigs). Nám og námsfyrirkomulag var samsvarandi og í Stýrimannaskólanum í Reykjavík og náið samstarf milli skólanna.

Árið 1981 hófst skipstjórnarfræðsla á Dalvík, og var námið hluti af sjávarútvegsdeild sem heyrði undir Verkmenntaskólann á Akureyri (VMA). Með nýskipan skipstjórnarnámsins og lögum um framhaldsskóla nr. 80/1996 varð skipstjórnarfræðsla í Vestmannaeyjum og Dalvík breytt í sjávarútvegsbraut; í Vestmannaeyjum við Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum, en á Dalvík í umsjá Verkmenntaskólans á Akureyri.

Skipstjórnarnám í landinu hefur lengi verið í endurskoðun. Menntamálaráðuneytið gaf út í júní 1996 skýrslu um "skipan skipstjórnarnámsins" sem unnin var úr þrem nefndarálitum frá 1985, 1990 og 1994.

Áfangakerfið og námstími nemenda

Í september 1997 gaf ráðuneytið út brautarlýsingar sjávarútvegsbrautar og var náminu breytt úr bekkjakerfi í áfangakerfi. Inntökuskilyrði er grunnskólapróf og allt nám er metið. Auk þess sem nám í sjávarútvegsbraut leggur grunn að fagnámi í efri stigum skólans er það góður undirbúningur fyrir allt annað nám í sjávarútvegi. Sjávarútvegsbraut er 68 einingar og lokið er 30 rúmlesta réttindanámi.

Nefnd, sem endurskoðaði nám til hærri stiga skipstjórnarnámsins, skilaði tillögum til menntamálaráðuneytisins í apríl árið 2000. Þar er að loknum námsáföngum sjávarútvegsbrautar gert ráð fyrir að nám til 1. stigs verði 42 einingar og taki að meðaltali tvær annir, nám til 2. stigs verði 44 einingar og taki tvær annir, og nám til 3. stigs verði ein önn og 20 einingar. Samtals er nám til fyllstu réttinda á öll skip nema varðskip því 175 einingar. Námsefni 4. stigs hefur ekki enn verið endurskoðað en að því verður unnið n.k. haust í samráði við Landhelgisgæsluna.

Meðalnámstími nemenda, sem hófu nám í Stýrimannaskólanum strax að loknu grunnskólaprófi, var 6 annir eða 3 skólaár til skipstjórnarprófs 1. stigs, 8 annir til 2. stigs og 9 annir til ótakmarkaðra réttinda á kaupskip og sem yfirstýrimaður á varðskipum ríkisins. Kennslutíma er skipt í haust- og vorönn. Haustönn stendur frá því um 20. ágúst og fram í miðjan desember. Vorönn er frá byrjun janúar og fram um 20. maí þegar skólaárinu lýkur.

5. júní 2001 samþykkti menntamálaráðherra tillögu skólanefndar um tilfærslur á áföngum milli stiga. Ennfremur að nemandi sem hefur 24 mánaða reynslu til sjós fái allt að 16 einingar metnar inn í námið. Við þetta styttist námstíminn til 1. stigs í 2 skólaár, en námstíminn til 2. og 3. stgs er óbreyttur. Nemandi með 24 mánaða reynslu til sjós getur lokið náminu með einni önn minna.

1. ágúst 2003 tók Menntafélagið ehf yfir rekstur Stýrimannaskólans og Vélskólans.

Ýtarlegri fróðleik um sögu skipstjórnarmenntunar á Íslandi má finna í hinu vandaða riti, Stýrimannaskólinn í Reykjavík í 100 ár, eftir Einar S. Arnalds sagnfræðing, sem út kom árið 1993.

 

Iðnskólinn í Reykjavík

Saga Iðnskólans í Reykjavík hefst með stofnun Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík árið 1867. Það félag stofnaði til skólahalds fyrir iðnnema árið 1873 og fór kennsla fram á sunnudögum nemendum að kostnaðarlausu. Iðnskólinn í Reykjavík tók síðan til starfa 1904 í Vinaminni í Grjótaþorpi og tveim árum síðar flutti hann í nýbyggt hús Iðnaðarmannafélagsins við Vonarstræti. Skólastjóri var Jón Þorláksson, verkfræðingur og síðar athafnasamur borgarstjóri, en Þórarinn Þórarinsson, myndlistarmaður var ráðinn fastur teiknikennari. Þórarinn varð víðfrægur fyrir túlkun sína á íslenskri náttúru í myndum sínum. Kennt var á kvöldin og að loknum 12-13 stunda vinnudegi iðnnema þeirra tíma. Skólaárið 1929-1930 voru nemendur orðnir 295 í 26 iðngreinum og hófst þá kennsla í dagskóla í fyrsta sinn. Á kreppuárunum milli 1930 og 1940 fækkaði iðnnemum og haustið 1939 eru þeir 224 í 33 iðngreinum.

Fjölgun í iðnnámi og þróun kennslunnar

Fjöldi iðnnema margfaldaðist á árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Skólaárið 1942-1943 eru nemendur orðnir 571 í 43 iðngreinum, eða nærri 200 fleiri en árið á undan. Er þetta mesta fjölgun nemenda milli ára sem um getur í sögu skólans. Árið 1955 hófst kennsla í nýjum húsakynnum á Skólavörðuholti og var það táknrænt fyrir þá miklu efnahagslegu endurreisn sem varð á þeim árum í íslensku atvinnulífi. Í lok sjöunda áratugarins hóst nýr kafli í sögu skólans þegar stofnsettar voru fyrstu verknámsdeildirnar. Fram að því höfðu iðnmeistarar séð um alla verklega kennslu.

Árið 1982 var tekið upp áfangakerfi við skólann og námsefni í almennu bóknámi samræmt því sem kennt var í öðrum framhaldsskólum. Kennsla hófst í Meistaraskóla á vorönn 1963. Árið 1985 var stofnuð tölvubraut við skólann og hönnunarbraut 1995. Fyrstu stúdentarnir voru útskrifaðir frá Iðnskólanum í Reykjavík 1989. Grunnnám upplýsinga- og fjölmiðlagreina hófst haustið 2000 og leita margir nemendur inn á það svið. Um helmingur nemenda skólans stundar nám á þessum þrem brautum skólaárið 2001-2002. Leiðir iðnnema til framhaldsnáms á æðri skólastigum og til endurmenntunar hvenær sem er á starfsævinni eru orðnar mun greiðari en áður var. Þróun Iðnskólans í Reykjavík endurspeglar nú sem áður þróun íslensks atvinnulífs. Iðnskólinn í Reykjavík heldur í heiðri og viðheldur fagþekkingu rótgróinna iðngreina og mótar námsleiðir þar sem ný atvinnutækifæri eru að skapast. 

Nám og atvinnulíf

Sérstaða Iðnskólans í Reykjavík fólst í nánum tengslum skólans við atvinnulífið í landinu á hverjum tíma og markvissum undirbúningi nemenda til ákveðinna starfa. Iðnskólinn í Reykjavík hefur verið eins konar móðurskóli handverks og iðnmenntunar í landinu allt frá stofnun hans og á síðustu áratugum brautryðjandi í kennslu í tölvufræðum á framhaldsskólastigi.

Meginmarkmið og stefna Iðnskólans í Reykjavík var að veita menntun sem samtímis var sniðin að þörfum nemenda og atvinnulífs, auðga líf einstaklinganna og efla samfélagið. Sýn starfsmanna Iðnskólans í Reykjavík á starf skólans og menntastefna var í samræmi við þetta. Einkunnarorð skólans voru að mæta nemandanum þar sem hann væri staddur og að bjóða trausta menntun í framsæknum skóla.

Frekari fróðleik um sögu Iðnskólans í Reykjavík má finna í Iðnskóli í eina öld, Iðnskólinn í Reykjavík 1904-2004, samantekin af Jóni Ólafi Ísberg.