Fréttir forsíða

Mín framtíð – Íslandsmót verk- og iðngreina 2017

6.3.2017

  • Íslandsmót iðn- og verkgreina og framhaldsskólakynning.

Mín framtíð –  framhaldsskólakynning

Framhaldsskólakynning verður haldin dagana 16. – 18. mars 2017 í Laugardalshöllinni. Þarna gefst einstakt tækifæri til að kynna sér fjölbreytt námsframboð framhaldsskóla landsins en starfsfólk og nemendur 26 skóla munu miðla upplýsingum og fróðleik um námið, félagslífið og framtíðarmöguleikana.

Risastórt sýningarsvæði og fjölbreytt kynning

Tækniskólinn verður þarna að sjálfsögðu með risastórt sýningarsvæði enda stærsti framhaldsskóli landsins. Gestum gefst kostur á því að kynnast flestum greinum sem kenndar eru við skólann. Flugskóli Íslands verður með námskynningu og mætir með flugvél á svæðið, nemendur Raftækniskólans kynna fjölbreytt útskriftarverkefni og leyfa gestum að prófa. Tölvubrautin mætir með róbóta sem leysa ýmsar þrautir og gestir geta prófað skipstjórnarhermi. Þá verða nemendur á hársnyrtibraut með glæsilega kynningu og gestir fá að prófa hitt og þetta. Byggingatækniskólinn verður með hús og ekki bara hvaða hús sem er, heldur „opna“ húsið okkar.
Það er opið fyrir alla að mæta í Laugardalshöll og taka þátt í glæsilegri dagskrá.

Von er á um 8 þúsund grunnskólanemendum í 9. - 10. bekk alls staðar af landinu í Höllina til að kynna sér námsmöguleika og fjölbreytni iðngreina. 

Íslandsmót verk- og iðngreina 2017 

Á sama tíma fer fram í Höllinni Íslandsmót iðn- og verkgreina. Um 150 keppendur munu taka þátt í Íslandsmótinu og keppt verður í 21 iðngrein. Nokkrar greinar til viðbótar verða með kynningu á störfum en alls taka 27 iðn- og verkgreinar þátt  í ár. Fagreinarnar bjóða einnig upp á „Prófaðu“ svæði þar sem gestir fá að fikta, smakka og upplifa.

Laugardagurinn er fjölskyldudagur, fræðsla og fjör

Á laugardeginum eru fjölskyldur sérstaklega velkomnar. Gefst þá einstakt tækifæri til að snerta og upplifa ýmislegt skemmtilegt sem snertir nám og störf í iðn- og verkgreinum. Team Spark kynnir rafmagnsbíl og einnig verður í boði að smakka upp á kræsingar sem útbúnar hafa verið í keppninni.  

Vefsíða sýningar.


Mótið fer fram í Laugardalshöll og er opið fyrir gesti sem hér segir:

  • Fimmtudaginn 16. mars kl. 9 – 16
  • Föstudaginn 17. mars kl. 9 – 16
  • Laugardaginn 18. mars kl. 10 – 14     


Allir velkomnir - enginn aðgangseyrir!

Boðskort á Verkiðn 2017