Fréttir forsíða

Dreifnám í Véltækniskólanum

14.11.2008

  • Sjómannaskólinn við Háteigsveg

Innritun í Dreifnám/kvöldnám

Umsækjendur athugið: Áríðandi er að kynna sér vel skipulag námsins og mögulegar staðlotur.

Hafið því til hliðsjónar annarskipulag brautar og veljið áfanga af réttri önn:  
Vélstjórn – annarskipulag og áfangalisti.


Dreifnám – nám með vinnu eða dagskóla

Dreifnám er nám utan dagskóla sem sameinar kosti fjar- og kvöldnáms. Í dreifnámi getur áfangi verið kenndur að öllu leyti í fjarnámi, að öllu leyti í staðbundnu námi eða að hluta í fjarnámi og hluta í staðbundnum lotum.


Námsbrautir í dreifnámi

Á námsbrautum skólans eru áfangar í fagnámi og almennu námi. Nær allt fagnámið er kennt af skólanum sjálfum en almenna námið (s.s. íslenska, tungumál og raungreinar) og mögulega einstakir fagáfangar, eru kenndar af öðrum skólum innan Tækniskólans. Eftirfarandi námsbrautir eru í boði að hluta eða í heild í dreifnámi:

Vélavörður: Vélavarðarnámið er kennt á námskeiði (ekki dreifnámi) en áfangar í viðbótarnámi  til 24 m réttinda eru allir kenndir í dreifnámi á hverri önn.

Vélstjórn: Allir áfangar til A-réttinda eru kenndir í dreifnámi, ekki aðrir fagáfangar. Almenna námið á vélstjórnarbrautum má taka í dreifnámi, annað hvort í Tækniskólanum eða í öðrum skólum og fá metið.

Vélvirkjun: Fyrsta árið er hægt að taka í dreifnámi (sama og A-réttindi vélstjórnar), afgangurinn er í dagnámi (bæði á Háteigsvegi og í Hafnarfirði). Almenna námið á brautinni má taka í dreifnámi, annað hvort í Tækniskólanum eða í öðrum skólum og fá metið.

Rennismíði: Fagnámið er eingöngu í dagnámi en almenna námið má taka í dreifnámi, annað hvort í Tækniskólanum eða í öðrum skólum og fá metið.

Stálsmíði: Fagnámið er eingöngu í dagnámi en almenna námið má taka í dreifnámi, annað hvort í Tækniskólanum eða í öðrum skólum og fá metið.


Skipulag brauta og anna er með eftirfarandi hætti:


Bókleg kennsla á kennsluvef

Bóklegur hluti námsins fer fram á kennsluvef skólans (INNU) en verklegur hluti þess í staðbundnum námslotum (staðlotum). Á kennsluvef koma fram námsáætlanir, lesefnið er í mörgum tilvikum aðgengilegt eða tilvísun til þess (bóka og rafbóka), fyrirlestrar og kennslumyndskeið eru í mörgum tilvikum notuð, lögð eru fyrir verkefni og próf sem jafnframt er skilað á sama stað, og allar einkunnir og upplýsingar til nemenda koma þar fram.

 

Verkleg kennsla í staðlotum - skyldumæting

Í staðlotum er verklegur hluti námsins kenndur og um leið fer gjarnan fram námsmat þannig að skyldumæting er í þær. Upplýsingar um tímasetningar á staðlotum eru aðgengilegar á meðan opið er fyrir umsóknir í dreifnám.

Mikilvægt er fyrir nemendur, sem vinna þannig vinnu með námi að þeir komast ekki í staðlotur hvenær sem er, að kynna sér vel dagsetningar þeirra og velja áfangahópa sem hafa staðlotur á þeim dögum sem þeir komast frá.

Kennsla í staðlotum fer fram í Sjómannaskólanum Háteigsvegi, sjá grunnflatarmynd af húsnæði skólans.


Staðlotur – stundatafla

Stundatafla yfirstandandi annar er þessi:


 

Fjölbreytt námsmat

Námsmat er fjölbreytt og í mörgum tilvikum símat (stöðugt verið að leggja mat á þekkingu nemandans á meðan á námi stendur) en einnig próf. Prófin má í mörgum tilvikum taka utan skóla en einnig getur verið nauðsynlegt að mæta á prófstað. Nemendur eru hvattir til að fylgjast vel með próftöflu og gera ráðstafanir tímanlega varðandi próftöku ef þeir vilja óska eftir því að taka próf utan skóla.

Í mörgum símatsáföngum eru lykilmatsþáttapróf sem nemandi verður að standast til að klára áfangann. Ef nemandi hefur vottaða fjarveru í slíku prófi (skyndileg og óhjákvæmileg forföll vegna veikinda sem læknir vottar) hefur hann heimild til að endurtaka prófið einu sinni í samráði við kennara. Áríðandi er því að nemendur passi vel upp á mætingar í slík próf svo vinna áfangans verði ekki til einskis og byrja þurfi á ný í honum síðar.


Umsóknir og umsóknartímabil

Opið er fyrir umsóknir í dreifnám seinnpart sérhverrar annar og er þá sótt um nám fyrir næstu önn á eftir. Auglýst er hér á heimasíðunni hvenær opnað er fyrir umsóknir.

Þegar umsóknir um einstaka áfanga eru margar þá eru leyfðar yfirbókanir og svo er unnið með þær umsóknir eftir þeirri reglu að fyrstur kemur – fyrstur fær, að teknu tilliti til reglna um forkröfur.

Athugið að þótt opið sé fyrir áfanga í umsóknarkerfinu þýðir það ekki endilega að áfangi verði kenndur, fjöldi innritana í einstaka áfanga ræður því hvort þeir fari af stað og verða upplýsingar um það þá settar inn á heimasíðu skólans í lok innritunartímabilsins. Líklegra er alltaf að áfangi sem tilheyrir önn samkvæmt annarskipulagi námsbrautar verði kenndur á viðkomandi önn (t.d. vorannaráfangi á vorönn), en síður áfangi sem ekki er á annarskipulagi (t.d. haustannaráfangi á vorönn).

 

Nánari upplýsingar

Skólastjóri Skipstjórnar- og Véltækniskólans: Jón Hjalti Ásmundsson,  joh@tskoli.is