Algengar spurningar og svör

Smáskipanámskeið í fjarnámi

Algengar spurningar og svör

1. Þarf ég að mæta í einhverja tíma í smáskipanáminu?

Námið er kennt í fjarnámi þannig að það er ekki mæting í skólann fyrr en það kemur að innulotunni. Það er skyldumæting í innilotuna sem er í enda námskeiðs. Innilotan er yfirleitt í fjóra daga en skráðir þátttakendur geta séð dagskrá fyrir innilotuna á kennsluvefnum hjá okkur.

2. Ég get ekki stundað námið fyrstu vikuna – er það í lagi?

Það er í lagi en samt sem áður þá verða þátttakendur að fara yfir allt námsefnið sem tilgreint er í dagskrá námskeiðsins.

3. Þarf ég að vera við tölvuna á ákveðnum tímum?

Námskeiðið er kennt fljótandi en það þýðir að þátttakendur læra þegar þeim hentar – allt kennsluefni er klárt í upphafi námskeiðs.

4. Hvað þarf ég að verja miklum tíma í smáskipanámið?

Inni á kennsluvefnum eru verkefni sem þátttakendur þurfa að vinna til að fá þjálfun. Það er mjög mismunandi hvað þátttakendur þurfa langan tíma til að læra en það er komið undir hverjum og einum en við miðum við að þátttakendur komi vel þjálfaðir í lokaprófið. Það er nauðsynlegt fyrir Þátttakendur að horfa á alla fyrirlestra á námskeiðinu.

5. Hvað af efninu inni á kennsluvefnum þarf ég að prenta út?

Það er mjög gott að prenta út dagskrá námskeiðsins og verkefnin í siglingafræði, siglingareglum og stöðugleika.
Sjá nánar í dagskrá námskeiðsins.

6. Getum við verið tvö saman með sömu sjókortin á námskeiðinu?

Hver þátttakandi þarf að vera með sín sjókort á námskeiðinu. Í lokaprófinu tekur hver þátttakandi próf í sínum sjókortum. Sama á við um gráðuhornið.

7. Hvað þarf ég að hafa með mér í lokaprófin í smáskipanáminu?

Það er nauðsynlegt að hafa sjókort 365 og 31, gráðuhorn, reglustiku, hringfara, reiknivél, skriffæri og strokleður. Það er mjög gott að hafa með sér aukablý í skrúfblýantinn og hringfararann.

8. Hvaða gögn má hafa með sér í próf í smáskipanáminu?

Í siglingafræði geta þátttakendur verið með öll gögn með sér fyrir utan snjallsíma og tölvur.
Það eru engin gögn leyfileg í siglingareglum og stöðugleika.

9. Hvernig eru prófin í smáskipanáminu?

Það eru þrjú próf í smáskipanáminu. Það er próf í siglingafræði, siglingareglum og stöðugleika. Próftíminn í siglingafræðinni er 2,5 klukkustund, í siglingareglunum og stöðugleikanum er próftíminn 1 klukkustund fyrir hvort próf.

10. Hvar get ég séð einkunnir hjá mér eftir námskeiðið?

Inni á kennsluvefnum getur þú séð einkunnir úr hverjum prófþætti. Þú ferð í áfangar og velur kennslugrein og þá getur þú séð einkunnir í þeim námsþætti.

11. Þarf ég siglingatíma til að fá að taka þátt í smáskipanámskeiði?

Það er ekki krafa um að þátttakendur þurfi siglingatíma til að geta tekið þátt í smáskipanámskeiði.

12. Hvað þarf ég langan siglingatíma til að geta fengið útgefið atvinnuskírteini?

Til að fá atvinnuskírteini útgefið hjá Samgöngustofu þarftu að vera búinn að ná 18 ára aldri og með 12 mánaða siglingatíma en hver dagur á sjó reiknast sem 1,5 dagur þannig að 8 mánaða siglingartími dugar.

13. Ég er búinn að vera á trillu í mörg ár en siglingatíminn var ekki lögskráður. Hvernig get ég fengið þann siglingatíma metinn?

Ef þú er með siglingatíma á trillur sem er ekki í lögskráningarkerfinu hjá Samgöngustofu þá getur þú lagt fram vottorð um sjóferðartíma til Samgöngustofu en sá tími þarf að vera vottaður af tveimur trúverðugum aðilum. Sjá nánar á vef Samgöngustofu.

14. Ég hef ekki náð að stunda námið vegna mikillar vinnu, veikinda eða mikilla anna. Get ég fengið að taka innilotuna og lokaprófið með næsta námskeiði?

Þú verður að vera í sambandi við mig (Kjartan Örn 665 1100) ef þessi staða kemur upp. Eins og gefur að skilja þá eru þátttakendur á hverju námskeiði með forgang að sinni innilotu en ef það myndast rými þá er möguleiki á því að þátttakendur komist í innilotu og lokapróf með næsta námskeiði.

15. Hvernig sæki ég um smáskipaskírteini hjá Samgöngustofu?

Þegar þú sækir um smáskipaskírteini hjá Samgöngustofu þarft þú að skila inn til þeirra eftirfarandi gögnum: Bóklegt útskriftarskírteini frá Tækniskólanum – siglingatíma. Þú þarft einnig að skila inn læknisvottorði og passamynd. Samgöngustofa er búin að viðurkenna ákveðna lækna sem sjómannalækna. Nánari upplýsingar um þetta má sjá á heimasíðu Samgöngustofu.

16. Hvar gilda smáskiparéttindin sem Samgöngustofa gefur út?

Réttindin á smáskip gilda við Íslandsstrendur.

17. Hver er lágmarkseinkunn til að standast bókleg og verkleg próf?

Lágmarkseinkunn í prófum í smáskipanámi er 5.

18. Hver eru skilyrði skírteinisins á smáskip?

Að hafa náð 18 ára aldri, hafa staðist bókleg próf og að hafa lokið siglingatíma. Þú þarft að vera íslenskur ríkisborgari eða með heimilisfesti á Íslandi – einnig vottorð læknis um sjón.

19. Ég er ekki búinn að ná 18 ára aldri – get ég samt komið á smáskipanámskeið?

Þú getur það en þú getur ekki sótt um skírteini hjá Samgöngustofu fyrr en þú ert orðinn 18 ára.

20. Hvaða bátar teljast smáskip?

Smáskip eru skip sem eru styttri en 12 metrar að skráningarlengd.

21. Þarf einhver vélstjórnarréttindi á smáskip?

Það er ekki krafa um sérstök vélstjórnarréttindi á smáskip að 250 kW (335 hp) vélastærð. Rétt er að benda á að við erum að bjóða upp á námskeið sem heitir smáskipavélavörður en það námskeið veitir réttindi til að vera vélavörður á skipi með 750 kW vél og minni og 12 m og styttra að skráningarlengd. Skráning og nánari upplýsingar.

22. Þegar ég er búinn með smáskipanámið get ég þá tekið verklegt próf á skemmtibáta til að öðlast skemmtibátaréttindi?

Þegar smáskipanáminu er lokið þá geta þátttakendur tekið verklegt próf á skemmtibáta en verklegu prófin á skemmtibátana eru tvískipt - þátttakendur geta tekið verklegt próf á vélbát og á skútu.

23. Hvernig get ég fengið nánari upplýsingar um skemmtibátaréttindi?

Hér er hægt að sjá spurningar og svör um skemmtibáta eins og þennan lista.

24. Þarf ég að taka mér frí frá vinnu þegar ég fer í verklegu innilotuna?

Já, það er skildumæting í verklegu innilotuna og hún stendur allan daginn. Hérna má sjá dæmi um hvernig dagskrá fyrir verklegu innilotuna lítur út en dagskráin er breytileg á milli námskeiða.

Þessi dagskrá er fyrir námskeið þar sem við erum með tvo hópa í verklegri kennslu.

Ef það eru einhverjar spurningar sem ég kem ekki inná hérna þá er þér velkomið að hringja í mig.

Einnig getur þú farið inná vef Tækniskólans (www.tskoli.is) og á vef Samgöngustofu (www.samgongustofa.is). Síminn hjá mér 665 1100.

Kveðja – Kjartan Örn

Birt með fyrirvara um villur.