Upplýsingatækniskólinn

Nám til framtíðar

Upplýsingatækniskólinn menntar fólk til starfa við allar hliðar nútíma fjölmiðlunar og tölvutækni, annars vegar af upplýsinga- og fjölmiðlabraut, hins vegar af tölvubraut. 

Skólinn býður upp á skapandi nám sem byggist á hugmyndavinnu, hönnun og upplýsingatækni. Námið tekur mið af nýjum tímum og nýrri tækni við framsetningu upplýsinga og miðlun þeirra. Skólinn er í nánu samstarfi við atvinnulífið og háskólastigið. 

Samhliða námi geta nemendur Upplýsingatækniskólans bætt við sig einingum til stúdentsprófs. Gera má ráð fyrir að þá lengist námið um eina til tvær annir.

Starfsmöguleikar og framhaldsnám

Mikil þörf er fyrir tæknimenntað fólk í þjóðfélaginu. Nemendur sem útskrifast frá Upplýsingatækniskólanum eiga greiða leið í frekara nám á háskólastigi og eru eftirsóttir starfskraftar í atvinnulífinu. Allar greinar skólans eiga það sameiginlegt að nemendur vinna að raunverulegum úrlausnarefnum í náminu og eru vel þjálfaðir þegar út á vinnumarkaðinnn er komið.

Nemendur eiga möguleika á að sækja framhaldsnám í listaháskólum sem og í tæknifræði og tölvunarfræði, bæði hérlendis og erlendis. Þeir sem ljúka sveinsprófi í löggiltum iðngreinum eiga einnig kost á námi til iðnmeistaraprófs.

Kennsla Upplýsingatækniskólans fer að mestu leyti fram í Vörðuskóla Skólavörðuholti (kort) og flestar almennar greinar eru kenndar í aðalbyggingu Tækniskólans á Skólavörðuholti.

Skólastjóri er Guðrún Randalín Lárusdóttir.