Um námið


Kennsla samkvæmt nýrri námskrá í rafiðngreinum hófst vorið 2014.
Nemendur sem hófu rafiðnanám fyrir þennan tíma ljúka náminu samkvæmt eldri námskrám.

Nám í rafiðngreinum
er skipulagt með hliðsjón af lokamarkmiðum sem endurspegla kröfur um þekkingu og færni í hinum ýmsu starfsgreinum á sviði rafiðnaðar.
Grunnnám rafiðna er 80 einingar og tekur að jafnaði fjórar annir í skóla. Nemendur sem innritast í grunnnám rafiðna þurfa að hafa lokið skyldunámi í samræmi við aðalnámskrá grunnskóla og samræmdum lokaprófum í íslensku og stærðfræði með tilskildum lágmarksárangri skv. ákvæðum 2. gr. reglugerðar um innritun nemenda í framhaldsskóla.

Skipulag - verknámsleið eða samningsbundið iðnnám

Nemendur sem innritast í sérnám til sveinsprófs í rafeindavirkjun, rafveituvirkjun, rafvélavirkjun og rafvirkjun þurfa að hafa lokið grunnnámi rafiðna. Nám til sveinsprófs í rafiðngreinum tekur að jafnaði fjögur ár og skiptist í nám í skóla og starfsþjálfun á vinnustað. 

Skipulag náms: Um er að ræða tvenns konar skipulag.

  1. Verknámsleið þar sem meðalnámstími í skóla er sjö annir að meðtöldu grunnnámi auk 24 vikna starfsþjálfunar.
  2. Samningsbundið iðnnám þar sem meðalnámstími í skóla er sex annir að meðtöldu grunnnámi auk 48 vikna starfsþjálfunar.
  • Í rafvirkjun og rafvélavirkjun er hægt að velja á milli ofangreindra námsleiða. 
  • Í rafveituvirkjun er aðeins um að ræða samningsbundið iðnnám og í rafeindavirkjun er námið eingöngu samkvæmt verknámsleið.

Mikil skörun er milli starfa í rafveituvirkjun, rafvélavirkjun og rafvirkjun og námið því að stórum hluta sameiginlegt. Sérhæfing hverrar greinar á sér aðeins stað á lokaönn námsins sem og í starfsþjálfun á vinnustað.
Þetta leiðir til þess að það er auðvelt fyrir svein í einni grein að afla sér starfsréttinda í annarri grein sterkstraums.
Um alla starfsþjálfun samkvæmt framansögðu gilda ákvæði gildandi reglugerðar um námssamninga og starfsþjálfun

Grunnnám rafiðna

(GR15) - 120 ein.
Meginmarkmið grunnnáms rafiðna er að veita almenna og faglega undirstöðumenntun undir sérnám í rafiðngreinum, þ.e. rafeindavirkjun, rafvirkjun og rafvélavirkjun, rafveituvirkjun og símsmíði og er jafnframt skilyrði til innritunar í sérnám þessara greina.
Meðalnámstími er fjórar annir í skóla. Alls eru 41 eining í almennum bóklegum greinum en 79 einingar í faggreinum.
Til viðmiðunar við val á nemendum í Raftækniskólann er stuðst við einkunnir á skólaprófum, sérstaklega í stærðfræði, raungreinum, ensku og íslensku.

Grunnnám rafiðna - hraðferð

(GR14HR) - 58 ein.
Hraðferð grunnáms rafiðna er ætlað nemendum með stúdentspróf eða sambærilega menntun. Með hraðferðinni er grunnám rafiðna tekið á tveimur önnum í stað fjögurra og því mögulegt fyrir nemendur að klára bóknámshluta rafvirkjunar á fjórum önnum í stað fimm sé valin samningsleið. Verknámsleið rafvirkjunar, rafvélavirkjunar, rafveituvirkjunar og rafeindavirkjunar styttist þá úr sjö önnum í fimm.
Meginmarkmið grunnnáms rafiðna er að veita almenna og faglega undirstöðumenntun fyrir sérnám í rafiðngreinum, þ.e. rafeindavirkjun, rafvirkjun og rafvélavirkjun, rafveituvirkjun og kvikmyndasýningarstjórn og er jafnframt skilyrði til innritunar í sérnám þessara greina.
Meðalnámstími er tvær annir í skóla.
Inntökuskilyrði er að nemandinn hafi lokið stúdentsprófi eða sambærilegu námi.


Rafvirkjun

Rafvirkjun er löggilt iðngrein. Meðalnámstími er fjögur ár að meðtöldu grunnnámi rafiðna og starfsþjálfun á vinnumarkaði. Meginmarkmið námsins er að gera nemendum kleift að öðlast þá þekkingu og færni sem rafvirkjum er nauðsynleg í störfum sínum.
Náminu lýkur með sveinsprófi er veitir rétt til starfa í iðninni og til inngöngu í nám til iðnmeistaraprófs.
Rafvirkjun skiptist í tvær leiðir „samningsleið“ RK906 og „verknámsleið“ RK806.

Rafvirkjun (RK14S) - 163 ein. Samningsleið
Námið er sex annir í skóla og 48 vikur á samningi hjá meistara.
Nemendur ljúka bóklega hluta námsins í skólanum en stórum hluta verklega námsins hjá meistara.

Rafvirkjun (RK14V) - 164 ein. Verknámsleið
Námið er sjö annir í skóla og 24 vikur í starfsþjálfun hjá viðurkenndum rafverktaka.

Rafvirkjun fyrir vélstjóra og nemendur með 4.stigs vélfræðinám

Vélstjórar og nemendur sem komnir eru langt með 4. stigs vélfræðinám geta bætt við sig rafvirkjun. Samkvæmt bréfi frá Menntamálaráðuneytinu dagsett 15. Júní 2009 og sjá má hér.

Á samningsleið rafvirkjunar eru tvær brautir í boði. Það eru: RK15SD í dreifnámi og VRK913 í dagnámi.
Þeir áfangar sem vélfræðingar bæta við sig eru eftirfarandi:

Áfangaheiti í dagskóla Áfangaheiti í dreifnámi Heiti áfanga Einingar
FRL3RK03AR FRL103D Forritanleg raflagnakerfi 3
FRL3RK03BR FRL203D Forritanleg raflagnakerfi 3
RAM3RK02FR RAM602D Rafmagnsfræði 2
RER2RK03AR RER103D Reglugerðir 3
RLT2RK03AR RLT102D Raflagnateikning 2
(RLT2RK03AR) RLT202D Raflagnateikning 2
RLT3RK03BR RLT302D Raflagnateikning 2
TNTÆ3GA05CR TNT303D Tölvur og netkerfi 3
TNTÆ2GA04DR TNT403D Tölvur og netkerfi 3
VSM3RK03BR VSM203D Smáspennuvirki 3

Hægt er að taka hvora brautina sem er en þeir sem kjósa dreifnámsleiðina geta farið á innritunarvef skólans eða innritast í dagskóla um menntagatt.is eða sótt um brautarviðbót séu nemendur þegar í skólanum.


Rafeindavirkjun

(RE14) - 164 ein.
Rafeindavirkjun er löggilt iðngrein. Meginmarkmið námsins er að gera nemendum kleift að öðlast þá þekkingu og færni sem rafeindavirkjum er nauðsynleg í störfum sínum.
Meðalnámstími er fjögur ár að meðtöldu námi í grunnnámi rafiðna, samtals sjö annir í skóla og 24 vikna starfsþjálfun.
Náminu lýkur með sveinsprófi er veitir rétt til starfa í iðninni og til inngöngu í nám til iðnmeistaraprófs.

Rafveituvirkjun

(RT06) - 163 ein.
Rafveituvirkjun er löggilt iðngrein. Meðalnámstími er fjögur ár að meðtöldu grunnnámi rafiðngreina, þar af eru sex annir í skóla og 48 vikna starfsþjálfun.
Meginmarkmið námsins er að gera nemendum kleift að öðlast þá þekkingu og færni sem rafveituvirkjum er nauðsynleg í störfum sínum.
Náminu lýkur með sveinsprófi er veitir rétt til starfa í iðninni og til inngöngu í nám til iðnmeistaraprófs.

Rafvélavirkjun

Rafvélavirkjun er löggilt iðngrein. Meðalnámstími er fjögur ár að meðtöldu grunnnámi rafiðna og starfsþjálfun á vinnumarkaði. Meginmarkmið námsins er að gera nemendum kleift að öðlast þá þekkingu og færni sem rafvélavirkjum er nauðsynleg í störfum sínum.
Náminu lýkur með sveinsprófi er veitir rétt til starfa í iðninni og til inngöngu í nám til iðnmeistaraprófs.
Rafvélavirkjun skiptist í tvær leiðir, „samningsleið“ RV906 og „verknámsleið“ RV806.

Rafvélavirkjun (RV906) - 163 ein. Samningsleið
Námið er sex annir í skóla og 48 vikur á samningi hjá meistara. Nemendur ljúka bóklega hluta námsins í skólanum en stórum hluta verklega námsins hjá meistara.

Rafvélavirkjun (RV806) - 164 ein. Verknámsleið
Námið er sjö annir í skóla og 24 vikur í starfsþjálfun hjá viðurkenndum rafverktaka.

Hljóðtækni

90 einingar.
Hér er um að ræða nám í hljóðupptöku og vinnslu eins og best gerist á heimsvísu.
Nemendur sem útskrifast hafa góða og haldbæra þekkingu á forsendum hljóðupptöku og hljóðvinnslu sem og þjálfun í að taka upp og vinna hljóð.
Nemendur öðlast haldgóða þekkingu á upptökutækni, hljóðfræði og rafmagnsfræði sem tengist hljóði. Þeir þekki auk þess vel forsendur stafrænnar tækni frá analog/digtal breytum til þjöppunarstaðla og strauma.
Nemendur læri haldgóða tónfræði og þekki vel hegðun hljóðs og eðlisfræðilögmál þess.
Nemendur þekki vel helstu tæki og búnað sem nota þarf við hljóðupptöku og vinnslu og geti tekið upp hvort sem er einfalt tal og gert það klárt til útsendingar eða tekið upp hljómsveit. Námið er 90 einingar.

Inntökuskilyrði
Nemandi hafi lokið grunnskóla og tveggja anna framhaldsskólanámi, að lágmarki 60 einingum, þar af að lágmarki 10 einingum í ensku, 10 einingum í íslensku og 10 í stærðfræði, allt á 2. þrepi.
Einnig er æskilegt að nemandi hafi stundað tónlistarnám eða hafi reynslu af tónlistarflutningi.

Kvikmyndatækni

175 einingar. Gert er ráð fyrir að nemendur séu búnir með almennt bóknám og komi í kvikmyndatækni á 3.önn. Þá dragast frá 42 einingar og eftir standa 132 eining sem teknar eru í Tækniskólanum á 4.önnum. Það er keyrt á haustönn, vorönn, sumarönn og haustönn.

Tækniskólinn býður upp á þetta nám í kvikmyndatækni í samstarfi við Stúdíó Sýrland.

Kvikmyndatækni er metnaðarfullt nám þar sem áhersla er lögð fyrst og fremst á tæknistörf við kvikmyndagerð, við undirbúning, tökur og eftirvinnslu

Námið er byggt upp í góðu samstarfi við atvinnulífið og kennarahópurinn er m.a. skipaður fagfólki úr kvikmyndabransanum.

Hver og einn nemendahópur vinnur eins og framleiðslufyrirtæki, þar sem allar hliðar kvikmyndagerðar koma við sögu. Hvort sem um er að ræða tökumenn, klippara, ljósamenn og grippara, þá fá nemendur að kynnast „hands on“ vinnu við hvert skref.

Framleiðslan felur í sér vinnu við bíómyndir, sjónvarpsefni, tónlistarmyndbönd, auglýsingar, fréttir og beinar útsendingar.

Símsmíði

Símsmiði er lögverndað starfsheiti.

Nám í símsmíði/fjarskiptalögnum er 3 - 4 ár.
Það byrjar á grunnnámi rafiðna  sem tekur 4 annir að meðaltali en færist síðan yfir í sérhæfingu 3 - 4 annir.

Símsmiður starfar við lagningu og tengingar fjarskiptastrengja og tengir við endabúnað í símstöð og í götuskáp ásamt því að tengja upp inntakskassa og þaðan inn í hýbýli manna. Hann leggur fjarskiptastrengi innanhúss og tengir við allan almennan notendabúnað. Hann annast bilanaleit og viðgerðir á strengjum bæði utan- og innanhúss. Þá annast hann uppsetningu og viðhald á möstrum og fjarskiptabúnaði til sendinga í lofti.

Símsmiður getur sett saman fjarskiptastrengi og tengt við endabúnað samkvæmt stöðlum og verkblöðum og tengt fjarskiptaveitu við húsveitu. Hann getur unnið við uppbyggingu og rekstur tengivirkja í símstöðvum. Símsmiður annast fjarskiptalagnir og og fjarskiptabúnaði og hefur eftirlit með þeim í samræmi við gildandi reglugerðir og staðla. Símsmiður notar viðeigandi mælitæki við störf sín og framkvæmir bilanaleit og viðgerðir á fjarskiptalögnum og búnaði. Símsmiður hefur sérhæfða þekkingu á fjarskiptalagnateikningum og getur magntekið og unnið verkáætlanir eftir þeim.

Símsmiður býr yfir hæfni til að vinna sjálfstætt og getur leiðbeint öðrum. Hann þekkir til samskipta við landeigendur og umhverfismála og getur staðsett lagnir út frá kortum og GPS mælingum.

Námsskipulag allra brauta Raftækniskólans

Námskrá - Hljóðtækni HLT15
Námskrá - Hljóðtækni H-HLT_2010
Námskrá - Grunnnám rafiðna GR15

Námskrá - Kvikmyndatækni 2015
Námskrá - Símsmíði SI15

Kynningarbæklingur
Áfangar í boði næstu annir
Valáfangar allra brauta
Raftækninám - jafngildi áfanga - ný námskrá

Áfanga- og brautarlýsingar

Áfanga- og brautarlýsingar er að finna í námsvísi/námskrá Tækniskólans

Verkfæralisti nemenda í rafiðngreinum.