Raftækniskólinn

Kynningarbæklingur (pdf)

Í daglegu lífi og störfum eru Íslendingar háðari rafmagni og rafrænni tækni en nokkru sinni fyrr. Rafmagns- og rafeindatækni er svo samofin grunngerð samfélagsins að tæpast er hægt nefna nokkra starfsemi, starfsstétt eða athafnasvið sem getur komist af án þessarar tækni nema um stundarsakir.

Í Raftækniskólanum er veitt menntun í fimm iðngreinum:

  • Rafvirkjun
  • Rafvélavirkjun
  • Rafveituvirkjun
  • Rafeindavirkjun
  • Hljóðtækni

Allar ofangreindar faggreinar utan hljóðtækni byrja með sameiginlegu námi í Grunnnámi rafiðna.

  • Stúdent af náttúrufræðibraut raf en það eru áfangar grunnnáms rafiðna í bland við almennar bóknámsgreinar til stúdentsprófs.

Skipan náms

Nám í rafiðngreinum er skipulagt með hliðsjón af lokamarkmiðum sem endurspegla kröfur um þekkingu og færni iðnsveina í hinum ýmsu starfsgreinum á sviði rafiðnaðar. Grunnnám rafiðna er 120 feiningar og tekur að jafnaði 4 annir í skóla. Nemendur sem innritast í grunnnám rafiðna þurfa að hafa lokið skyldunámi í samræmi við aðalnámskrá grunnskóla og samræmdum lokaprófum í íslensku og stærðfræði með tilskildum lágmarksárangri skv. ákvæðum 2. gr. reglugerðar um innritun nemenda í framhaldsskóla.

Nemendur sem innritast í sérnám til sveinsprófs í rafeindavirkjun, rafveituvirkjun, rafvélavirkjun og rafvirkjun þurfa að hafa lokið grunnnámi rafiðna. Nám til sveinsprófs í rafiðngreinum tekur að jafnaði 4 ár og skiptist í nám í skóla og starfsþjálfun á vinnustað. Um er að ræða tvenns konar skipulag:

  1. Verknámsleið þar sem meðalnámstími í skóla er sjö annir að meðtöldu grunnnámi auk 24 vikna starfsþjálfunar.
  2. Samningsbundið iðnnám þar sem meðalnámstími í skóla er sex annir að meðtöldu grunnnámi auk 48 vikna starfsþjálfunar.

Í rafvirkjun og rafvélavirkjun er hægt að velja á milli námsleiða. Í rafveituvirkjun er aðeins um að ræða samningsbundið iðnnám og í rafeindavirkjun er námið eingöngu samkvæmt verknámsleið.

Mikil skörun er milli starfa í rafveituvirkjun, rafvélavirkjun og rafvirkjun og námið því að stórum hluta sameiginlegt. Sérhæfing hverrar greinar á sér aðeins stað á lokaönn námsins sem og í starfsþjálfun á vinnustað. Þetta leiðir til þess að það er auðveldara fyrir svein í einni grein að afla sér starfsréttinda í annarri grein sterkstraums en áður hefur verið.

Að loknu starfsnámi geta nemendur bætt við sig stúdentsprófi af list- og starfsnámsbrautum (VSS) en einnig geta nemendur tekið stúdentspróf af náttúrufræðibraut samhliða grunnnámi rafiðna (NRT13).

Um alla starfsþjálfun samkvæmt framansögðu gilda ákvæði gildandi reglugerðar um námssamninga og starfsþjálfun.

Hvar er kennt

Raftækniskólinn býður upp á nám í grunnnámi rafiðna bæði á Skólavörðuholti og í Tækniskólanum Hafnarfirði. Einnig býður Raftækniskólinn upp á nám í rafvirkjun – samningsbraut á báðum stöðum en rafeindavirkjun, rafveituvirkjun og rafvélavirkjun eru eingöngu á Skólavörðuholti.

Námsefni

Þess má geta að sú stefna hefur verið tekin upp hjá Fræðsluskrifstofu rafiðnaðarins að allt námsefni í rafiðngreinum verði ókeypis nemendum. Þetta er þegar langt komið og sárafáar bækur sem nemendur þurfa að kaupa til námsins. Námsefni er að finna á rafbok.is.

Raftækniskólinn er með spjallsíðu (hóp) á Facebook.

Skólastjóri Raftækniskólans:

Valdemar G. Valdemarsson,
Netfang: vgv@tskoli.is
Sími 514 9251. Gsm: 896 6110
Stofa 323 (3. hæð - Skólavörðuholti)