Skipulag námsins

Nám við Margmiðlunarskólann er tveggja ára diplómanám, á fjórða hæfnisþrepi. Námið er 120 feiningar, þar sem áætlaðar vinnustundir nemenda að baki hverri feiningu er 24 tímar. Námið er fullt nám í dagskóla Tækniskólans, kennt á fjórum önnum.

Námið - skipulag eftir önnum:

  • Fyrsta önnin samanstendur af áföngum í þrívídd, hönnun, hreyfimyndagerð og leikjagerð. 
  • Á annarri önn eru framhaldsáfangar í fögum frá fyrstu önn en við bætist áfangi þar sem nemandi rannsakar og fjallar um tiltekið tæknilegt svið, allt eftir áhugasviði sínu, sem fellur undir sérhæfingu skólans. Annarri önn lýkur með sjálfstæðu lokaverkefni. 
  • Á þriðju önn námsins gefst nemanda tækifæri til að sérhæfa sig enn frekar í valáfanga. Þar velur hann í samráði við kennara innihald, umfang og fjölda verkefna í áfanganum. Þriðju önn lýkur með verkefni þar sem nemandi nýtir sérhæfingu sína í hópvinnu við framleiðslu á efni. 
  • Fjórða og síðasta önnin inniheldur einn áfanga þar sem nemandi vinnur að útskriftarverkefni undir handleiðslu kennara.

Sérhæfing, sjálfstæði og fjölbreytni

Á fyrra námsárinu fá nemendur yfirsýn yfir fagið, fræðilegan grunn þess og helstu verkfæri. Síðan tekur við sérhæfðari þjálfun í nýtingu og útfærslu einstakra þátta. Nemendaverkefni geta skarast þvert á áfanga sem kenndir eru á sömu önninni þar sem tiltekinn þáttur verkefnis gildir til einkunna í hverjum áfanga fyrir sig og tekur mið af markmiðum þeirra.

Námskrá Margmiðlunarskólans