Kennsluhættir

Áfangi sem sjálfstæð heild

Hver námsáfangi er sjálfstæð heild en skipuleggja má námið í heildstæðum viðfangsefnum þvert á áfanga eða skipta efni tiltekinna áfanga í smærri námsþætti allt eftir þörfum nemendahópsins. Þess skal þó ávallt gætt að lokamarkmiðum námsins og markmiðum einstakra áfanga sé haldið til skila og að heiti og númer áfanga séu rétt tilgreind á prófskírteinum nemenda.

Raunveruleg verkefni í þrívídd

Við skipulagningu kennslu í þrívíddarvinnslu er mikilvægt að kennari velji leiðir sem samræmast markmiðum námskrár og miðast við að þroska fagvitund nemenda og þjálfa fagleg vinnubrögð. Störf á sviði þrívíddar eru afar fjölbreytt og krefjast þekkingar og færni er lúta að tækni, hönnun, samskiptum, verkstjórnun, framleiðslu og félagslegum álitamálum. Nauðsynlegt er að þjálfa færni til að takast á við raunveruleg verkefni þar sem verkfyrirsögn eða fyrirmæli kunna að liggja fyrir sem og verkefni þar sem lausnir liggja ekki í augum uppi. Leit að lausnum krefst hugkvæmni og rökvísi sem mikilvægt er að þjálfa með nemendum.

Útskriftarverkefni

Í útskriftarverkefni er lögð áhersla á að nemandinn:

  • geti stýrt verkefnum,
  • lagt mat á upplýsingar út frá mismunandi forsendum og sjónarhornum,
  • geti gagnrýnt eigin verk og annarra á uppbyggilegan hátt
  • unnið verkefni frá hugmynd til útgáfu.

Námskröfur af þessum toga fela í sér þjálfun í sjálfstæðum vinnubrögðum sem og samvinnu, m.a. þjálfun í hópvinnu. Verkefnavinna sem skipulagsform í námi og kennslu sameinar flesta framangreinda þætti. Stefnt er að því að nemendur venjist slíkum vinnubrögðum þegar í grunnnáminu, þ.e. að taka virkan þátt í að skilgreina viðfangsefni, leita lausna, ákveða efnistök, vega og meta upplýsingar, verkstýra og fjalla um mál frá ólíkum sjónarhornum.

Krafa um aukin gæði og þjónustu á sviði þrívíddar er stöðug og vaxandi, því er það mikilvægt að nemendur hugi vel að faglegri ábyrgð sinni og gildi símenntunar.