Um námið

Nám í Handverksskólanum 

Námið nýtist vel bæði sem undirbúningur fyrir frekara nám á háskólastigi eða sem fullgild menntun í löggiltum iðngreinum. 

Fataiðnbrautin undirbýr nemendur fyrir störf tengd fataiðnaði, sveinspróf í kjólasaumi og klæðskurði eða áframhaldandi nám í sérgreinum tengdum fataiðn og fatahönnun. 
Gull- og silfursmíðabrautin er eina brautin á Íslandi sem undirbýr nemendur fyrir sveinspróf í gull- og silfursmíði.
Hársnyrtibrautin undirbýr nemendur fyrir störf í hársnyrtiiðnaði og sveinspróf í hársnyrtingu.

Upplýsingar um skipulag brauta og áfanga:


Fataiðnbraut

Markmið fataiðnbrautar er að nemendur öðlist góða þekkingu og hæfni og séu færir um að starfa við fataiðn og einnig að fara í áframhaldandi nám. Býður upp á nám fyrir þá sem vilja undirbúa sig fyrir störf í atvinnulífi eða áframhaldandi nám á sviði handverks eða hönnunar.

Fatatækninám (4 annir): Meginmarkmið náms í fatatækni er að nemendur öðlist nauðsynlega þekkingu og færni til að starfa sem fatatæknar við saumaskap og ýmsa þjónustu tengda fatnaði og tísku. Námið er jafnframt undanfari náms í löggiltu iðgreinunum kjólasaumi og klæðskurði.

Nemi við störf í kennslustund á fataiðnbrautinni.Sérnám í fataiðn: Meginmarkmið námsins er að gera nemendum kleift að öðlast þá þekkingu og færni sem sveinum í kjólasaumi og/eða klæðskurði er nauðsynleg. Náminu lýkur með sveinsprófi er veitir rétt til starfa í iðninni og til inngöngu í nám til iðnmeistaraprófs. Náminu lýkur með sveinsprófi er veitir rétt til starfa í iðninni og til inngöngu í nám til iðnmeistaraprófs.

Aðgangskröfur: Að hafa lokið námi í grunnskóla.

Lengd náms: Fatatæknir: 2 ár. Lokapróf í kjólasaum/klæðskurði: 4 ár

Að lokinni útskrift: Úr fatatækni geta nemendur haldið áfram í 2 ár og tekið lokapróf í kjólasaum/klæðskurði.
Í klæðskurði/kjólasaum geta nemendur tekið sveinspróf í greininni sem er löggilt iðngrein og geta starfað sem sveinn í kjólasaumi/klæðskurði.

Nemendur í fatatækni þurfa að skila inn vottorðum frá vinnuveitendum:

Vinnuvottorð fyrir nema í fatatækni - íslenska

Vinnuvottorð fyrir nema í fatatækni - enska 

 

Gull og silfursmíðabraut

Aðgangskröfur: Að hafa lokið námi í grunnskóla

Lengd náms: Fjögur ár alls, fimm annir í skóla og 72vikna starfsþjálfun.

Að lokinni útskrift: Nemendur geta tekið sveinspróf í greininni sem er löggilt iðngrein og geta starfað sem sveinn í gull- og silfursmíði.


Upplýsingar til umsækjenda vegna inntöku í nám á gull- og silfursmíðabraut 

Listi yfir verkfæri nema á fyrsta ári í gull- og silfursmíði 
Listi yfir verkfæri frá Handverkshúsinu

Nýir nemendur eru teknir inn að hausti. Stafrænar umsóknir á gull- og silfursmíðabraut þurfa að berast fyrir lok maí en inntökunefnd er að störfum í júní. Umsækjendur skili jafnframt inn kynningamöppum á aðalskrifstofu skólans, að hámarksstærð A-3, fyrir 31. maí. Teknir eru inn 8 nemendur.

Inntökuskilyrði: Gull- og silfursmíði er löggilt iðngrein og telst vera á framhaldsskólastigi; því eru ekki sett fram inntökuskilyrði til náms í iðngreininni umfram þau sem koma fram í löggiltri Aðalnámskrá framhaldsskóla, gull- og silfursmíði, frá 2005. Nemendur sem innritast í nám í gull- og silfursmíði þurfa þannig að hafa lokið skyldunámi í samræmi við aðalnámskrá grunnskóla og náð tilskildum lágmarksárangri skv. ákvæðum 2. gr. reglugerðar um innritun nemenda í framhaldsskóla.

Þeir nemendur sem hefja nám verða að ná lágmarkseinkunn 7 í áfanganum verkleg gull- og silfursmíði 109 eftir fyrstu önnina til að fá að halda áfram námi.

Meðalnámstími er fjögur ár, samtals fimm annir í skóla og 72 vikna starfsþjálfun. Til að ljúka námi þarf nemandi að gera samning um starfsnám hjá meistara. Náminu lýkur þá með sveinsprófi er veitir rétt til starfa í iðninni og til inngöngu í nám til iðnmeistaraprófs.

Vegna mikils fjölda umsókna í námið undanfarin ár hefur inntökunefnd sett fram eftirfarandi vinnureglur til viðmiðunar í inntökuferlinu:
Horft er til frammistöðu og ástundunar í fyrra námi og þess undirbúnings er tengist list-, verk- eða hönnunargreinum sem umsækjandi hefur aflað sér. Umsækjandi skal leggja fram möppu; hámarksstærð er A-3, sem inntökunefnd mun jafnframt taka tillit til í inntökuferli. Tekið er við möppum á aðalskrifstofu Tækniskólans, Skólavörðuholti, til 31. maí.


Hársnyrting

Markmið námsins er að gera nemendur færa um að veita þá alhliða þjónustu sem er í boði á hársnyrtistofum á hverjum tíma. Náminu lýkur með sveinsprófi sem veitir rétt til starfa í iðninni og til inngöngu í nám til iðnmeistaraprófs. Námið úr skólanum er góður undirbúningur fyrir frekara nám svo sem í listaháskólum. Meðalnámstími er fjögur ár.Til að ljúka stúdentsprófi þarf að bæta við tveimur til þremur önnum í almennu námi.

Við upphaf náms í hársnyrtingu

Þegar nemendur hefja nám á hársnyrtibraut þá þurfa þeir að festa kaup á áhöldum, bókum og hári fyrir verklegu áfangana. Þeir fá í hendur lista yfir þessa hluti og leiðbeiningar um hvar þeir fást. Mjög mikilægt er að nemendur kaupi þessa hluti í fyrstu kennsluviku þar sem ekki er mögulegt að hefja námið án þess. Kostnaður fyrir verklegu áfangana getur orðið um 150 þúsund í upphafi og nýtast þessir hlutir gegnum allt námið, aðeins þarf að kaupa hausa til viðbótar á flestum önnum og einstaka áhald.

Hér má lesa námsskrá:
Námskrá


Innkaupalisti fyrir nýnema

Hársnyrtiiðn er samningsbundið iðnnám

Nám í hársnyrtiiðn er samningsbundið iðnnám og skipulagt með hliðsjón af lokamarkmiðum sem endurspegla þá þekkingu og færni sem krafist er af fullnuma hársnyrti.

Námið hefst á grunnbraut sem tekur að jafnaði þrjár annir. Þar eru allar almennar greinar hársnyrtiiðnar kenndar auk grunnáfanga hársnyrtingar. Síðan tekur við framhaldsbraut hársnyrtingar þar sem námið er verkefnastýrt og fléttast saman nám í skóla og á vinnustað. Fer það eftir getu og afköstum nemenda hversu langan tíma það tekur. Heildarnámstími er að jafnaði 3-4 ár að grunnbraut meðtalinni.

Fullnuma hársnyrtir getur starfað á hársnyrtistofum hérlendis og erlendis, við fjölmiðla, leikhús, heildsölur og sýningar ýmiskonar. Einnig er möguleiki á framhalds- og viðbótarmenntun og sérhæfingu á ýmsum sviðum.

Náminu lýkur með sveinsprófi sem veitir rétt til starfa í iðninni og til inngöngu í nám til iðnmeistaraprófs.

Nám og kennsla í hársnyrtiiðn miðast við að veita almenna, faglega undirstöðumenntun í greininni, auka færni nemenda í meðferð hársnyrtivara og beitingu áhalda og tækja. Leitast er við að þjálfa sjálfstæð vinnubrögð nemenda og auka hæfileika og getu þeirra til samvinnu við aðra.

Fagleg vinnubrögð og þjónusta

Stefnt er að því að nemendur auki færni sína til þess að standast kröfur iðngreina um nákvæmni, áreiðanleika og fagleg vinnubrögð.

Hársnyrtar vinna í mikilli nálægð við viðskiptavini sína og því er mikilvægt að þjálfa samskiptafærni nemenda og getu þeirra til þess að öðlast skilning á þörfum viðskiptavina. Einnig er lögð áhersla á að rækta með nemendum jákvætt viðhorf til gæða í þjónustu.

Vinnustaðanám

Vinnustaðanám er skipulagt á þann hátt að um er að ræða sjálfstæða þjálfun úti í fyrirtækjum. Skipulag þess tekur mið af lokamarkmiðum námsins. Markmið vinnustaðanámsins er m.a. að þjálfa nemandann til þess að takast á við sífellt flóknari viðfangsefni þar sem saman fara vinnuhraði, fagleg vinnubrögð, nákvæmni, færni og kröfur um að fyllstu öryggisþáttum sé fullnægt.