Endurmenntunarskólinn

Hlutverk Endurmenntunarskólans er að auka og efla símenntun með þarfir atvinnulífsins að leiðarljósi. Markmið skólans er að bjóða upp á viðbótar- og framhaldsnám fyrir þá sem lokið hafa stúdentsprófi eða starfstengdu námi af einhverjum toga sem og almenn námskeið sem eru öllum opin.

Námskeið Endurmenntunarskólans

Endurmenntunarskólinn býður upp á fjölda námskeiða fyrir almenning. Skólinn býður einnig sérhæfð námskeið fyrir starfsfólk ólíkra atvinnugreina til sjós og lands sem og undirbúningsnámskeið fyrir sveinspróf í iðngreinum Tækniskólans. Námskeiðin eru styrkhæf hjá flestum fræðslusjóðum stéttarfélaga.

Námskeið fyrir almenning

Kvöld- og helgarnámskeið eru af margvíslegum toga. Sem dæmi má nefna námskeið í teikningu, olíumálun, bókagerð, bókbandi, húsgagnaviðgerðum, málmsuðu, gítarsmíði, útskurði, silfursmíði, sauma- og prjónanámskeið og kennslu á iPone og iPad. Þá er kennd steinaslípun, leikhúslýsing, grjóthleðsla, tölvuleikjagerð, þrívíddarhönnun og svo mætti lengi telja. Einnig býður Endurmenntunarskólinn upp á sérsniðin námskeið fyrir fyrirtæki og félagasamtök.

Réttindanámskeið og undirbúningur fyrir sveinspróf

Hjá Endurmenntunarskólanum er hægt að taka námskeið til að endurnýja skipstjórnarréttindi, smáskipanámskeið, vélgæslunámskeið – smáskipavélavörður á skip 12 m og styttri, námskeið til undirbúnings fyrir skemmtibátapróf, ratsjárnámskeið, námskeið í hásetafræðslu, í rafrænum sjókorta- og upplýsingakerfum, rafrænni afladagbók sem og undirbúningsnámskeið fyrir sveinspróf í ýmsum iðngreinum.


Skólastjóri Endurmenntunarskólans er:

Ragnhildur Guðjónsdóttir, netfang: rag@tskoli.is

Verkefnastjórar námskeiða eru: 

Marta Loftsdóttir og Hulda Orradóttir, netfang: endurmenntun@tskoli.is