Byggingatækniskólinn

Fjölbreytt nám á framhaldsskólastigi

Velkomin til starfa í byggingariðnaði

Nám í byggingariðnaði er án vafa einn af bestu námskostunum sem völ er á þar sem bæði er hægt að velja margar leiðir á háskólastigi og það er sérnám sem leiðir til starfsréttinda.


Kynningarbæklingur (pdf)

Grunnnám

Starfsnám í bygginga- og mannvirkjagerð er skipulagt þannig að nemendur innritast fyrst í sameiginlegt einnar annar grunnnám sem gefur heildarmynd af bygginga- og mannvirkjaiðnaði þannig að nemandinn eigi auðveldara með að velja fagsvið að því loknu. Grunnnámið veitir einnig undirstöðuþekkingu á námsþáttum svo sem og efnisfræði, vélum, áhöldum og öryggismálum. Að grunnnámi loknu velja nemendur sérnám í einhverri eftirtalinna greina:

 • Húsasmíði
 • Húsgagnasmíði
 • Málun
 • Múrsmíði
 • Pípulagnir
 • Veggfóðrun og dúkalögn

Sérnám til starfsréttinda

Sérnám í einstökum iðngreinum tekur við að grunnnámi loknu og tekur að meðaltali þrjú og hálft ár. Misjafnt er eftir iðngreinum hve stór hluti sérnáms fer fram í skóla og hve stór hluti þess fer fram sem starfsþjálfun á vinnustað. Nemandi sem lýkur sérnámi fær afhent sveinsbréf sem veitir starfsréttindi í greininni.
Ýmsir möguleikar á framhaldsmenntun standa til boða að loknu sérnámi. Hægt er að auka starfsréttindi með meistaranámi eða stefna að stúdentsprófi eða sambærilegu námi sem veitir réttindi til þess að hefja nám á háskólastigi.

Tækniteiknun

Tækniteiknun er hagnýtt nám þar sem nemendur læra á öll helstu forrit sem notuð eru til hönnunar á mannvirkjum. Tækniteiknun er einnig kjörin námsleið til undirbúnings frekara námi í tæknigreinum í byggingariðnaði.


Kynningarmyndband um námið í Tækniteiknun

Stúdentspróf

Nemandi sem er í starfsnámi á framhaldsskólastigi á kost á viðbótarnámi til undirbúnings námi á háskólastigi. Slíku námi lýkur með stúdentsprófi.

Aðstaða Byggingatækniskólans

Námið í skólanum er kennt á þremur stöðum:

 • Aðalbygging Skólavörðuholti: Húsasmíði (einnig kennd í Skeljanesi 9), Húsgagnasmíði, Málariðn, Veggfóðrun og dúkalagnir.
 • Hafnarfjörður - Flatahrauni 12: Húsasmíði, húsgagnasmíði, Pípulagnir.
 • Skeljanes 9: Múraraiðn og Húsasmíði.

Kort sem sýnir kennslustaði í Reykjavík

 

Verkfæri - tréiðngreinar

Nemendur sem lokið hafa grunnáföngum eiga að verða sér út um neðangreind verkfæri og mæta með þau í verklega áfanga. Þessi verkfæri er hægt að kaupa í flestum byggingavöruverslunum og er áætlað verð frá 25.000.- til 40.000.- kr.:

 • Hefill no. 4
 • Sporjárnasett 6stk.
 • Rissmát tré/brons mm
 • Sniðmát
 • Vinkill 150mm
 • Klaufhamar 16oz
 • Borasett 10stk.
 • Úrsnari
 • Bitasett torx
 • Tommustokkur 1m í millimetrum.
 • Verkfærakassi
 • Heyrnahlífar

Nánari upplýsingar um verkfæri fá nemendur hjá kennurum í verklegum greinum.
Einnig er ætlast til að nemendur mæti í vinnufatnaði í verklegar greinar. Tækniskólinn tekur ekki ábyrgð á skemmdum á fatnaði.

Persónuhlífar og öryggismál

Nemendur sem hefja nám í bygginga- og mannvirkjagreinum verða að koma með eigin öryggisskófatnað, hlífðargleraugu og heyrnahlífar sem hann skal ávallt nota í verklegri aðstöðu Byggingatækniskólans. Einnig skal árétta að nemendum er með öllu óheimilt að vinna við vélar í vélasal nema í skipulögðum áföngum þar sem kennari er til staðar.

Fjölbreytt framhaldsnám

Nemendum sem lokið hafa námi í Byggingatækniskólanum stendur til boða fjölbreytt framhaldsnám, innanlands sem erlendis.

Meistaranám

Í námi til meistaraprófs er lögð áhersla á stjórnunar- og rekstrarþekkingu ásamt þekkingu á lögum og reglugerðum um byggingariðnaðinn.

Nám á háskólastigi

Hafi byggingariðnaðarmaður nýtt þær leiðir sem færar eru til undirbúnings námi á háskólastigi bjóðast honum ýmsir valkostir. Hann getur til dæmis aflað sér menntunar í:

 • Byggingarfræði
 • Byggingariðnfræði
 • Byggingartæknifræði
 • Umhverfis- og byggingarverkfræði
 • Arkitektúr
 • Húsgagna- og innanhússarkitektúr


Hvernig nám í Byggingatækniskólanum opnar ýmsar leiðir til frekara náms

Skólastjóri Byggingatækniskólans

Gunnar Kjartansson
Netfang: gkj@tskoli.is
Skrifstofa skólastjóra er á Skólavörðuholti

Byggingatækniskólinn er með síðu á Facebook. Vertu vinur okkar: Finndu okkur á Facebook