Próf og námsmat

Próf og námsmat

Námsmat

Í annarlok fær nemandi einkunn fyrir árangur sinn í sérhverjum áfanga sem hann er skráður í. Fyrirkomulag námsmats og vægi einstakra þátta í námsmatinu (verkefna, vinnuframlags, prófa) kemur fram í kennsluáætlun. Gefnar eru einkunnir í heilum tölum frá 1 til 10. Til að standast námsmat í áfanga og fá leyfi til að hefja nám í þeim næsta þarf lágmarkseinkunn 5. Þó er nemanda heimilt að útskrifast með einkunnina 4 ef um er að ræða áfanga sem ekki er undanfari annars áfanga á brautinni. Þetta á einnig við um lokaáfanga á skip- og vélstjórnarbrautum B, C og D og 2., 3. og 4. stigi vélstjórnar (hámark 3 einingar á hverju stigi). Slíkir áfangar gefa ekki einingar og þarf nemandi að skila öðrum einingum í staðinn.

Stöðupróf

Í nokkrum námsgreinum getur skólinn heimilað nemendum sínum að taka stöðupróf. Stöðuprófum er ætlað að kanna þekkingu eða hæfni nemenda og ákvarða í hvaða áfanga þeir skuli hefja nám í skólanum. Þeir sem gangast undir stöðupróf greiða sannanlegan kostnað vegna prófanna.

Prófreglur

 1. Próftöflu skal að jafnaði leggja fram ekki seinna en mánuði fyrir próftímabil.
 2. Vægi spurninga kemur fram á prófverkefni og prófið er sett upp sem 100%.
 3. Nemandi má ekki mæta til prófs síðar en 10 mínútum eftir að próf hefst og er óheimilt að yfirgefa prófstofu fyrr en 30 mínútur eru liðnar af próftíma.
 4. Mæti nemandi of seint til prófs, skal hann snúa sér til prófstjóra, sem getur heimilað honum að taka prófið ef minna en 30 mínútur eru liðnar af próftímanum Nemandinn verður að yfirgefa prófsalinn á sama tíma og aðrir.
 5. Nemendur skulu slökkva á farsímum og taka af sér heyrnartól áður en gengið er í prófstofu.
 6. Í upphafi prófs skulu persónuskilríki nemanda liggja á borði. Hafi nemandi ekki persónuskilríki er honum vísað til prófstjóra. Kennari getur borið kennsl á nemanda ef hann er ekki með skilríki.
 7. Í upphafi prófs skulu nemendur ganga úr skugga um: a) að prófgögn þeirra séu rétt; b) að á borðum þeirra séu aðeins þau hjálpar­gögn sem tilgreind eru á forsíðu próf­sins.
 8. Nemandi skrifar nafn sitt, kennitölu og áfangaheiti á blað sem gengur í stofunni.
 9. Nemandi skilar öllum blöðum sem honum eru afhent í prófinu.
 10. Á prófsýningardegi geta nemendur skoðað úrlausnir sínar hjá kennara.
 11. Ef nemandi er staðinn að misferli í prófi skal vísa honum frá prófi og getur hann átt von á brottvikningu úr skóla, tímabundið eða til frambúðar, eftir alvarleika brots. Hið sama gildir um misferli þar sem námsmat felst í öðru en skriflegu eða munnlegu prófi.
 12. Veikindi í prófi: Nemanda, sem veikist og getur þar af leiðandi ekki þreytt próf, ber að tilkynna um veikindi sín samdægurs til skrifstofu skólans og skila þangað læknisvottorði innan þriggja daga. Veikist nemandi í prófi ber honum að vekja athygli prófgæslumanns sem skrifar athugasemd um það á prófúrlausn nemandans. Skal læknisvottorði dagsettu samdægurs skilað til skrifstofu skólans. Nemandi sem veikist eða verður fyrir slysi á próftímanum hefur rétt til þess að taka sjúkrapróf. Sækja skal um sjúkrapróf sama dag og aðalpróf er.
 13. Nemandi sem vill fresta prófi til sjúkraprófsdags vegna mikils prófaálags þarf að sækja um slíkt á skrifstofu skólans áður en próftímabil hefst. Gera má ráð fyrir einhverjum kostnaði vegna þessa.

Lestrar- og skriftarörðugleikar

Nemendur með lestrar- og skriftarörðugleika (dyslexíu) og aðrir nemendur með skynjunarörðugleika eiga rétt á að fá eftir því sem við á:

 • lengri próftíma
 • próf lesið fyrir sig
 • próf með stærra letri/eða annað sem samið hefur verið um

Þeir einir eiga rétt á þessari þjónustu sem hafa greiningu frá sérfræðingi (sérkennara eða sálfræðingi). Nemendur eiga að snúa sér sem fyrst og eigi síðar en tveimur vikum fyrir próf til sérkennara eða námsráðgjafaTækniskólans telji þeir sig eiga rétt á þessari þjónustu. Einnig er hægt að sækja um þessi úrræði í gegn um Innu, sjá nánari leiðbeiningar þar.

Ágreiningur

Komi upp ágreiningur milli nemanda og kennara um mat úrlausnar, sem þeir geta ekki leyst með milligöngu fag- eða skólastjóra, skal skólameistari kveðja til prófdómara til þess að fara yfir úrlausnina að höfðu samráði við fag- eða skólastjóra. Úrskurður prófdómara skal gilda.

Námskröfur

 1. Nemandi skal ljúka 9 einingum á önn hið minnsta.
 2. Heimilt er að víkja frá þessu ákvæði ef um er að ræða:
  • Sérstaka erfiðleika í námi, svo sem lesröskun eða fötlun.
  • Lokaönn í námi.
  • Nemendur á námssamningi.
 3. Nemandi sem fellur á önn fær aðeins heimild til innritunar á næstu önn hafi hann haft meira en 70% mætingu á önninni og geri samning um ástundun og skólasókn.
 4. Nemandi sem fallið hefur á tveimur önnum í röð eða þremur önnum samtals fær ekki skólavist á næstu önn.

Um fall í einstökum áföngum

Falli nemandi þrisvar í sama áfanga þarf nemandi að sækja um undanþágu til skólastjóra ef hann vill halda námi áfram. Skólastjóri metur aðstæður nemandans og heimilar frekari skólavist eða hafnar. Jafnframt vísar skólastjóri nemandanum til námsráðgjafa.

Upptökupróf

Nemandi á útskriftarönn sem getur ekki útskrifast vegna falls í einum eða tveim áföngum getur fengið heimild til að taka endurtökupróf í áfanganum eða áföngunum ef hægt er að koma því við. Nemandinn greiðir kostnað við að halda prófið. Einkunn fyrir úrlausn í endurtökuprófi gildir sem lokaeinkunn í áfanganum.

Brautskráning

Nemandi lýkur námi í skólanum þegar hann hefur lokið ákveðnum áföngum og einingafjölda eins og tilgreint er í brautarlýsingu. Námstími til brautskráningar getur verið mislangur og fer eftir námsafköstum og lengd námsbrauta. Við brautskráningu fær nemandi skírteini þar sem fram kemur hvaða námi hann hefur lokið. Þar kemur fram hvaða áföngum nemandinn hefur lokið og með hvaða einkunn.