Tækniskólalínan

Tækniskólalínan

Tækniskólalínan - upplýsingar fyrir nemendur og foreldra/forráðamenn (pdf)

Forsíða Tækniskólalínunnar haust 2017.Þjónusta

Aðalskrifstofa skólans er staðsett á annarri hæð við aðalinnganginn á Skólavörðuholti. Hún er opin frá kl. 08:00 - 15:00 alla virka daga. Skrifstofur skólans á Háteigsvegi (4.h) og í Hafnarfirði (2.h) eru á bókasafni og opnar á afgreiðslutíma safnsins.

Tölvuþjónusta

Allir nemendur hafa aðgang að tölvukerfi Tækniskólans og þráðlaust net er opið öllum með sama aðgangsorði og í Innu.

Inna og kennsluvefur

Til þess að fá aðgang að Innu er smellt á „Sækja nýtt lykilorð“. Nemendur skrá inn kennitölu og velja réttan skóla og fá þá sent lykilorð í tölvupósti. Sama gildir um þá nemendur sem ekki hafa farið inn í kerfið áður.

Aðstandendur ólögráða nemenda fá einnig aðgang að Innu. Í Innu geta nemendur skoðað stundatöflu, námsframvindu, mætingu og miðannarmat. Tengill í Innu er neðst á heimasíðu skólans.

Mikilvægt er að nemendur gæti þess að netföng þeirra og símanúmer séu rétt skráð í Innu. Nemendur eldri en 18 ára geta sjálfir veitt foreldrum eða forráðamönnum aðgang að Innu. Inna og kennsluvefur skólans er einn og sami vefur.

Bókasafn

Bókasafn skólans er á þremur stöðum, í Hafnarfirði, Háteigsvegi og Skólavörðuholti. Starfsfólk safnsins aðstoðar nemendur við upplýsingaleit og heimildaöflun. Lesstofur og tölvur eru á öllum stöðum. Einnig er aðstaða til prentunar og skönnunar. 

Á Háteigsvegi er les- og vinnuaðstaða nemanda opin til kl. 22:45 á virkum dögum og til kl. 19:45 um helgar. Allir nemendur Tækniskólans geta sótt um rafrænan aðgang að lesrýminu ef þeir vilja notfæra sér aðstöðuna eftir lokun bókasafnsins.

Námsver

Í námsveri skólans geta nemendur fengið aðstoð við próftöku og heimanám auk þess sem þar er veitt aðstoð í almennum grunngreinum. Einnig er hægt að leita til námsversins við verkefna- og ritgerðasmíð. Námsverið er staðsett á bókasafninu á Skólavörðuholti, í hópvinnuherbergi í Hafnarfirði og á 4. hæð á Háteigsvegi. Upplýsingar um opnunartíma námsversins eru á heimasíðu skólans.

Töflubreytingar

Töflubreytingar eru eingöngu fyrir þá sem ekki fengu áfanga í töflu samkvæmt vali, töflubreytignar eru gerðar rafrænt í Innu, sjá leiðbeiningar.

Hvað þýða nýju áfangaheitin?

ENS2LM03ATS  
Ensku áfanginn er á 2. þrepi, 03=einingar og röð áfangans er A=fyrsti í röð (hefur ekki undanfara). T=Tæknimenntaskólinn S=Skólavörðuholt. Sjá nánar, http://gogn.tskoli.is/files/eplicapdf/ny_afangaheiti.pdf

Úrsögn úr áfanga

Ef nemandi hyggst segja sig úr áfanga þarf hann að fylla út sérstakt eyðublað á skrifstofu eða bókasafni. Nemendur yngri en 18 ára þurfa samþykki forráðamanns fyrir úrsögn úr áfanga. Úrsögn úr áfanga getur verið háð samþykki viðkomandi skólastjóra.
Athugið! Síðasti dagur til að óska eftir úrsögn úr áfanga er 31 ágúst.

Útskriftarnemendur

Nemendur sem hyggjast útskrifast í lok annar þurfa að gefa sig fram við skólastjóra sinn og skrá sig til útskriftar eigi síðar en 31.ágúst.

Val fyrir næstu önn

Síðasti dagur til að ganga frá vali fyrir haustönn 2017 verður 16. október. Nemendur eru hvattir til að mæta tímanlega í viðtalstíma hjá umsjónarkennara sínum til að ganga frá vali.

Umsjónarkennarar

Nemendur geta leitað til umsjónarkennara með allt er varðar námið. Umsjónarkennarar hafa vikulega viðtalstíma sem skráðir eru á stundatöflu nemenda (UMSJÓN).

Námsráðgjafar

Námsráðgjafar eru til viðtals fyrir nemendur um allt sem lýtur að námi þeirra. Nemendur geta rætt persónuleg vandamál sín við námsráðgjafa í þeirri fullvissu að þeir eru bundnir þagnarskyldu. Innan skólans eru námsráðgjafar málsvarar nemendanna.  
Upplýsingar um viðtalstíma og staðsetningu námsráðgjafa er að finna á hér á vefnum.

Sérkennsla

Fjölnir Ásbjörnsson tekur á móti lestrargreiningu og annarri greiningu á námsvanda. Hann annast einnig lesgreiningu sé þess óskað. Viðtalstímar eru auglýstir á heimasíðu skólans.

Skólasókn

Nemendur skulu sækja allar kennslustundir í þeim áföngum sem þeir hafa valið sér og mæta  stundvíslega. Ef nemandinn mætir ekki í skólann eða gerir ekki grein fyrir fjarveru sinni fyrstu kennsluvikuna er litið svo á að hann ætli ekki að stunda nám í skólanum. Sé nemandi fjarverandi úr kennslustund eða fjarverandi meira en 20 mínútur af kennslustund fær hann tvö fjarvistarstig. Komi nemandi of seint til kennslu fær hann eitt fjarvistarstig.

Skólasóknareinkunn er gefin fyrir heildarmætingu. Fyrir góða raunmætingu 95-100% fær nemandi eina námseiningu sem nýtist sem hluti af frjálsu vali.
Reglulega er gerð úttekt á skólasókn nemenda. Nemendur sem reynast með 80-90% mætingu á úttektardegi fá viðvörun. Nemendur með mætingu undir 80% eru boðaðir í viðtöl til umsjónarkennara eða skólastjóra. Fari nemandi niður fyrir 80% heildarmætingu áskilur skólinn sér rétt til að vísa honum úr skóla. Kvartanir vegna fjarvistarskráningar eiga að berast til kennara áfangans.

Vottorð vegna veikinda

Nemendur sem eru orðnir 18 ára þurfa að skila læknisvottorði á skrifstofu skólans innan viku frá þeim degi sem þeir koma aftur í skólann eftir veikindi. Nemendur yngri en 18 ára geta skilað skriflegu vottorði um veikindi frá forráðamanni. Skólinn staðfestir móttöku slíkra vottorða með tölvupósti til forráðamanns. Forráðamenn geta einnig skráð veikindi nemenda undir 18 ára beint inn í Innu. Ath. að ekki er tekið við vottorðum vegna fjarvista hluta úr degi. 

Upplýsingar um fjarvistir kennara

Fjarvistir kennara eru tilkynntar nemendum í Innu og með tölvupósti.

Félagslíf

Tækniskólinn leggur ríka áherslu á að í skólanum sé mikið og fjölbreytt félagslíf nemenda. Innan allra skóla Tækniskólans starfa félög nemenda sem saman mynda nemendasamband Tækniskólans. Hlutverk nemendafélaganna og nemendasambandsins er að halda utan um félagslíf skólans, klúbba, keppnir innan og utan skóla og aðrar uppákomur. 
Nemendasambandið er með skrifstofu á fimmtu hæð á Skólavörðuholti og á annarri hæð í Hafnarfirði. 

Nemendur eru hvattir til þess að tengjast NST á Facebook og Snapchat.

Forvarnarfulltrúi

Forvarnarfulltrúi er til viðræðu við nemendur sem hafa áhyggjur af eigin vímefnaneyslu, vina sinna eða vandamanna. Forvarnarfulltrúi er Guðlaug Kjartansdóttir. 

Prentkort

Til að nálgast prentverk í prenturum eða til að ljósrita á fjölnotavélum þurfa nemendur að hafa prentkort. Kortinu fylgja a.m.k. 100 prenteiningar, en sumar brautir fá fleiri einingar.

1 prenteining - A4 svart/hvítt

2 prenteiningar - A4 í lit og A3 svart/hvítt

4 einingar - A3 í lit

Nemendur sækja um prentkort á bókasöfnum skólans og greiða þar 500 kr. Prentkortin eru yfirleitt tilbúin samdægurs eða daginn eftir en þau þarf að láta virkja við afhendingu.

Geymsluskápar

Á Háteigsvegi, Skólavörðuholti og í Hafnarfirði eru geymsluskápar til afnota fyrir nemendur án endurgjalds. Reglurnar eru einfaldar: Fyrstur kemur fyrstur fær, ef skápur er opinn er hann laus til notkunar. Nota skal eigin lás. Skápa á að tæma og skilja eftir opna í lok skólaárs 1. júní ár hvert. Eftir það verður klippt á lása sem enn eru á skápum og innihaldi skápanna fargað.

Mötuneyti

Mötuneyti er á 3. hæð í aðalbyggingu Tækniskólans á Skólavörðuholti. Mötuneyti á Háteigsvegi er á 4. hæð og mötuneytið í Hafnarfirði er á 2. hæð.

Umgengni

Nemendur skulu ganga vel og snyrtilega um skólann. Í Hafnarfirði þurfa allir að fara úr útiskóm áður en gengið er upp á aðra og þriðju hæð.

Farsímar

Notkun á farsíma eða öðrum snjalltækjum í kennslustund er háð heimild/samþykki kennara hverju sinni.

Reykingar

Í samræmi við lög eru reykingar og öll notkun tóbaks, s.s. munntóbaks og rafsígarettna, allt bannað í skólanum og á lóð hans.

Tryggingar

Nemendur og munir þeirra eru ekki tryggðir sérstaklega hjá skólanum. Fjölskyldu- og heimilistryggingar nemenda bæta ýmis tjón.

Tækniskólalínan - upplýsingar fyrir nemendur og foreldra